Fiskeldisskóli slær í gegn
Fiskeldisskóli unga fólksins hefur víða verið vel sóttur í sumar.
Fiskeldisskólinn er samstarfsverkefni vinnuskóla sveitarfélaga, Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og fyrirtækja í fiskeldi. Honum er ætlað að bæta menntun tengda fiskeldi og miðla þekkingu til krakka á aldrinum 14-16 ára. Kennarar eru nemendur sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri, ýmist útskrifaðir eða enn í námi.
„Skólinn hefur gengið mjög vel og mikill áhugi er á honum. Í sumar vorum við til dæmis að kenna í fyrsta sinn á Húsavík og í Þorlákshöfn en við höfum einnig kennt hann í Vesturbyggð og á Djúpavogi. Fiskeldisskólinn er hluti af „Bridges VET“ verkefni, sem er samstarfsverkefni Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands um nám í fiskeldi,“ segir Guðrún Arndís Jónsdóttir, forstöðumaður í Háskólanum í Akureyri, alsæl með áhuga unga fólksins á fiskeldisskólanum.