Fljótandi fjós
Á ársfundi IDF (International Dairy Federation), sem eru samtök bænda og úrvinnsluaðila mjólkur, sem haldinn var í Rotterdam í Hollandi árið 2016, var birt hugmynd að ákveðinni framtíðarsýn að kúabúskap en það var að vera með „fljótandi fjós“. Skýringin á þessu fólst í því að landbúnaðarland fer minnkandi með hverjum deginum á jörðinni og miðað við mannfjöldaspár fyrir heiminn allan þarf á sama tíma og landið minnkar, að snarauka framleiðslu landbúnaðarvara á komandi áratugum. Til þess að mæta þessari gríðarlega miklu þörf fyrir matvæli þarf því bæði að auka nýtingu þess lands sem þegar er aðgengilegt til ræktunar en einnig að horfa til nýrra lausna og að margra mati er einmitt betri nýting á vötnum og sjó augljós lausn eða a.m.k. góð viðbót enda er um 75% jarðarinnar undir vatni með einhverjum hætti.En hvert er landbúnaðarlandið að fara? Undir vegi og mannvirki, híbýli manna, tekið úr notkun eða er jafnvel sökkt í eða undir vatn. Til þess að mæta þessari þróun hafa margir bændur horft til svokallaðs lóðrétts landbúnaðar, þ.e. að í stað þess að taka dýrmætt land undir marga fermetra á einni hæð yfir í að hafa skepnurnar á mörgum hæðum. Um þetta hefur verið fjallað hér á síðum blaðsins áður, bæði varðandi ræktun grænmetis í gríðarstórum vörugeymslum og nýverið mátti lesa um stærðarinnar svínabú í Kína sem er byggt á mörgum hæðum. Hingað til hafa kúabú ekki verið byggð nema á tveimur hæðum, þ.e. nautgripir á jarðhæð og kjallari nýttur fyrir hauggeymslu, tæki og reyndar stundum nautgripi líka. En greinarhöfundi er þó ekki kunnugt um fjós á fleiri en tveimur hæðum, fyrr en nú!
Hugmyndin kom vegna flóða
Hugmyndina að þessu fljótandi fjósi fengu arkitektarnir Peter og Minke van Wingerden þegar fellibylurinn Sandy gekk yfir New York árið 2012. Þá flæddi vatn um hluta borgarinnar og lamaði stóran hluta af mætvælaflutningum til borgarinnar um tíma. Þau létu sér þá detta í hug að færa þyrfti landbúnaðinn einhvern veginn nær borgunum og fengu hugmyndina að því að nýta hafnarsvæðin til þess. Enn fremur komust þau að því að mikið af nýtanlegum lífrænum úrgangi og afgöngum matvæla er flutt frá stórborgum nú til dags, oft einungis til lífgasframleiðslu eða jafnvel bara urðunar en ekki frekari nýtingar. Þarna sáu þau tækifæri í að nýta kýrnar til þess að vera mikilvægur milliliður og að nýta mætti þennan úrgang miklu betur en gert er í dag. Tilfellið er að kýr henta óhemju vel til þess að nýta það sem til fellur af úrgangi frá borgum og þéttbýli, sé sá úrgangur meðhöndlaður rétt. Vömb kúa, sem inniheldur milljarða af örverum, getur nefnilega aðlagast ótrúlega fjölbreyttu umhverfi og getur því í raun breytt lífrænum úrgangi í mjólk.
Vilja gera landbúnaðinn aðlaðandi
Þau töldu einnig að hugmyndin um fjós og mjólkurframleiðslu inni í stórborg eins og Rotterdam myndi gera þessa mikilvægu framleiðslugrein meira aðlaðandi og mögulega draga fleiri inn í búgreinina. Þau fóru í kjölfarið í hönnunarvinnu og ákváðu að fjósið yrði byggt þannig að það yrði eins sjálfbært og umhverfisvænt og hægt væri með lágu eða engu sótspori. Þannig er t.d. öll rafmagnsnotkun búsins sjálfbær en við hlið fjóssins er prammi alsettur sólarsellum sem sér búinu fyrir allri orku. Þá ákváðu þau að hafa fjósið hannað þannig að það væri eins opið og hægt væri, svo gestir og gangandi gætu auðveldlega séð til kúnna auk þess sem öll mjólkin er unnin á staðnum í margs konar afurðir. Ennfremur er fjósið hannað þannig að nýta má það sem rannsóknarvettvang fyrir landbúnað framtíðarinnar auk þess sem gestir geta heimsótt fjósið.
Þriggja hæða fjós
Fjósið er hannað fyrir 40 kýr og mjaltaþjón og er 40 metra breitt og 32ja metra langt og er í raun eins og fljótandi prammi. Eins og áður segir þá er það á þremur hæðum og hefur hver þeirra sérstöku hlutverki að gegna. Neðst er tæknirými fjóssins þar sem m.a. er ráðgert að vera með framleiðslu á grasi með ljóstvistum (LED). Á annarri hæð fjóssins fer fram afurðavinnsla fjóssins, bæði á mykju og mjólk en allur búfjáráburður fer frá fjósinu og er nýttur á græn svæði borgarinnar. Mjólkin er unnin á staðnum og seld beint til neytenda og á veitingastaði. Auk þess er þar geymslusvæði fóðurs og kennslurými á annarri hæð þess. Á þriðju hæð fjóssins eru svo kýrnar sjálfar og mjaltaþjónninn sem sinnir þeim ásamt sköfuþjarki sem safnar saman skítnum sem fellur til og skilar frá sér niður í söfnunartank. Þakið er svo sérstaklega hannað til söfnunar á regnvatni, sem eftir hreinsun er boðið kúnum til drykkjar. Hið fljótandi fjós getur svo hreyfst upp og niður samhliða sjávarföllunum en til þess að tryggja stöðugleika þess, gagnvart öldugangi og vindi, er það í raun fasttengt við stálbita sem reknir hafa verið niður í sjávarbotninn. Þessir bitar gera það að verkum að fjósið er mjög stöðugt og nær það t.d. aldrei að halla nema um að hámarki tæpa 30 cm þrátt fyrir öldugang eða vind.
Franskar kýr
Kýrnar á búinu eru af hinu franska kyni Montbéliarde en þetta er nokkuð harðgert kyn og þekkt fyrir hreysti. Kynið er ekki sérlega afurðamikið, miðað við t.d. hið þekkta Holstein kyn, en þykir henta betur við þessar aðstæður þar sem fóðurgæðin geta verið með ýmsum hætti og dægursveiflur geta verið á gæðum þess. Þá er mjólk Montbéliarde próteinrík sem hentar vel fyrir afurðavinnslu búsins.
Nýta það sem til fellur
80% af fóðrinu sem kýrnar fá kemur frá alls konar vinnsluaðilum í Rotterdam og nýta þær í raun úrgang og hliðarframleiðslu frá annarri matvælavinnslu í borginni. Dæmi um þetta er hýði af kartöflum, uppsóp og úrgangur frá kornvinnslum og brugghrat. Þá fá kýrnar einnig nýslegið gras sem kemur frá íþróttavöllum og grænum svæðum borgarinnar! Allt fóðrið sett í fóðurblandara og kúnum gefið heilfóður með sérstöku færibandakerfi. Til viðbótar hafa kýrnar svo aðgengi að beitarsvæði sem þær geta farið á með því að rölta um landgang frá fjósinu og upp á land.
Fjölbreyttari framleiðsla fram undan
Ef fram fer sem horfir þá munu á næstunni bætast við fleiri bú við hlið kúabúsins og er stefnan sú að þetta svæði í höfninni í Rotterdam verði í raun töluvert stórt matvælaframleiðslusvæði. Þannig hefur nú verið hannað fljótandi kjúklingabú auk þess sem gert er ráð fyrir fljótandi lóðréttu garðyrkjubúi á svæðinu.