Framsóknarflokkurinn vill bann við innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum
„Í ljósi dóms EFTA-dómstólsins um innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og eggjum er ljóst að vegið er að íslenskum búfjárstofnum og lýðheilsu Íslendinga,“ segir í ályktun Framsóknarflokksins á nýliðnu flokksþingi.
Flokkurinn vill að bann við innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum verði áfram tryggt í íslenskum lögum.
Í ályktun Sjálfstæðisflokksins á nýloknum landsfundi segir að tryggja skuli að innflutningur hrárra landbúnaðarafurða feli ekki í sér sýkingarhættu fyrir innlenda bústofna.
Samkvæmt ályktun Framsóknarflokksins telur flokkurinn að sjálfbær þróun verði ætíð að vera leiðarstef í allri atvinnustarfsemi sem byggir á nýtingu náttúruauðlinda.
Innflutningur má ekki fela í sér sýkingarhættu
Í ályktun Sjálfstæðisflokksins um landbúnaðarmál kvað við örlítið annan tón þar sem segir: „Tryggja skal að innflutningur hrárra landbúnaðarafurða feli ekki í sér sýkingarhættu fyrir innlenda bústofna“
Þá segir að gera verði sömu kröfur til framleiðslu innfluttra búvara og gerðar eru til innlendrar framleiðslu.
Jafnframt kemur fram í ályktun Sjálfstæðismanna að tryggja þurfi heilbrigða samkeppni með landbúnaðarvörur, þá sérstaklega mjólkurvörur, með það að markmiði að auka vöruúrval og bæta hag neytenda.