Framtíðaræktunarsvæði kortlögð eftir yrkjum
Ástralir hafa búið til spákort sem sýnir væntanlegar hita- og úrkomubreytingar vegna hlýnunar jarðar og áhrif þeirra á ræktun vínþrúgna í álfunni. Kortið gerir vínræktendum kleift að sjá fyrir hvaða yrki gefa mest af sér í framtíðinni.
Kortið nær yfir 71 vínræktarsvæði í suðurhluta Ástralíu og sýnir hita- og úrkomubreytingar í framtíðinni og um leið hvaða yrki vínþrúgna muni standa sig best á hverju svæði. Að sögn vínræktenda í Ástralíu mun kortið koma að góðum notum þar sem árlega eru flutt út vín fyrir um 2,78 milljarða bandaríkjadali, eða um 386 milljarða íslenskra króna.
Skipta þarf um yrki
Hitaspár sýna svo ekki verður um villst að hiti í Ástralíu og víðast annars staðar í heiminum mun hækka á næstu árum og áratugum og að vínbændur verða að aðlagast breytingunum með því að skipta um þrúgur. Þetta þýðir að bændur sem rækta þrúgur eins og pinot noir og chardonnay þurfa að skipta þeim út fyrir hitaþolnari yrki eins og shiraz.
Þeir sem standa að gerð kortsins, sem tók fjögur ár, segja að það sé unnið í samræmi við nýjustu spár um hita- og úrkomubreytingar á vínræktarsvæðunum sem það nær yfir og að þær eigi að gilda til ársins 2100. Reiknað er með að hiti á svæðunum muni að meðaltali hækka um 3 °C á tímabilinu auk þess sem spár gera ráð fyrir aukinni tíðni hitabylgja og minni úrkomu.
Í sumum tilfellum verður ekki nóg fyrir bændur að skipta út yrkju og því einnig nauðsynlegt að flytja ræktunina í meiri hæð og úr suðurhlíðum þar sem hiti er ekki eins mikill. Einnig er líklegt að víða þurfi að koma upp vökvunarbúnaði þar sem hann hefur ekki verið nauðsynlegur til þessa.
Svipuð kort væntanleg fyrir aðra starfsemi
Fastlega má reikna með að fljótlega muni fleiri svipuð kort liggja fyrir þar sem meðal annars verður spáð fyrir um breytingar í skógrækt, vatnsbúskap og ferðamennsku svo dæmi séu tekin.