Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Steinþór Logi Arnarson, Stórholti í Dölum, er nýkjörinn formaður Samtaka ungra bænda.
Steinþór Logi Arnarson, Stórholti í Dölum, er nýkjörinn formaður Samtaka ungra bænda.
Fréttir 15. febrúar 2022

Framtíðin í landbúnaði björt

Höfundur: Vilmundur Hansen

Aðalfundur Samtaka ungra bænda var haldinn undir lok janúar síðast­liðinn og á fundinum tók Steinþór Logi Arnarson, Stórholti í Dölum, við sem formaður samtakanna af Guðmundi Bjarnasyni í Túni.

Steinþór segir að tilgangur samtakanna sé að sameina unga bændur á Íslandi um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Jafnframt því að vinna að bættri ímynd landbúnaðar með kynningar- og fræðslustarfi.

Auk Steinþórs eru í stjórn Samtaka ungra bænda Dísa Svövudóttir, Reiðholti í Rangárþingi ytra, Þuríður Lilja Valtýsdóttir, Vík í Mýrdal, Ísak Jökulsson, Ósabakka á Skeiðum og Jónas Davíð Jónasson, Hlöðum í Hörgárdal.

Verja hagsmuni ungra bænda

„Ég kem frá búi þar sem foreldrar mínir stunda sauðfjárbúskap og er mikið viðloðandi búskapinn og stefni að því að verða bóndi og hef verið í stjórn samtakanna í þrjú ár. Þar sem Guðmundur, fráfarandi formaður, gaf ekki kost á sér sem formaður aftur ákvað ég að bjóða mig fram enda hef ég mikinn áhuga á málefnum ungra bænda og ungs fólks sem langar að gera búskap að ævistarfi sínu.“

Steinþór segir að starfsemi Samtaka ungra bænda felist meðal annars í að fylgjast með málum sem tengjast hagsmunamálum bænda og ekki síst því sem snýr að hagsmunum ungra bænda. „Við erum virk í að fylgjast með og gera athugasemdir við mál sem eru að fara í gegnum Alþingi og endurskoðun búvörusamninga. Nýliðunarstuðningurinn er til dæmis eitt þessara mála og það voru gerðar nokkrar breytingar á honum að okkar frumkvæði.“

Á fjórða hundrað meðlimir

Í dag eru vel á fjórða hundrað meðlimir í samtökunum en þau eru miðuð við bændur sem eru undir 35 ára og ungt fólk sem hefur áhuga á að hefja búskap.

„Áhugi ungs fólks á landbúnaði er mikill og að aukast og endurspeglast meðal annars í því að aðsókn í nám í búfræði og garðyrkju er mikil og meiri en svo að Landbúnaðarháskólinn hefur ekki getað tekið alla inn og við höfum því talað fyrir því að plássum fyrir nemendur verði fjölgað. Auk þess sem áhugi á Samtökum ungra bænda er mikill.“

Fækkun og stækkun

„Eins og ástandið er í dag er bændastéttin að eldast og ekki síst sauðfjárbændur. Þróunin er sú að búum er að fækka og þau stækka og því erfitt að segja fyrir um hver nýliðun í stéttinni þarf að vera.

Í stefnumótun samtakanna er samt sem áður gert ráð fyrir að fjölskyldubú verði áfram ríkjandi rekstrarform í íslenskum landbúnaði. Spurningin snýst ekki síst um hvernig byggðir landsins þróast og vegnar, hvernig nýliðun verður í sveitum.“

Framtíð landbúnaðar björt

Steinþór er sannfærður um að framtíð landbúnaðar á Íslandi sé björt þrátt fyrir að það sér mótbyr eins og stendur, með til dæmis hækkandi áburðarverði. Í ofanálag þyngir það fyrirkomulag sem nú er á framleiðslurétti mjög fyrir nýliðum en til að mynda er gífurlegt fjármagn bundið í þeim kerfum sem eru við lýði í dag og því á brattann að sækja.

Að sögn Steinþórs er brýn þörf á frekari aðgerðum stjórnvalda í takt við boðaða stefnu þeirra í bæði landbúnaðarstefnu og matvælastefnu.

„Þrátt fyrir þetta vil ég hvetja ungt fólk til að vera óhrætt við að gera landbúnað að ævistarfi sínu og leggja stund á búskap því framtíð landbúnaðar á Íslandi er björt.“

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...