Frestun skila á niðurstöðum
Starfshópur um málefni vindorku mun skila niðurstöðum sínum og drögum að frumvarpi um nýtingu vindorku til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í áföngum.
Til stóð að starfshópurinn skilaði verkefninu af sér 1. febrúar, en samkvæmt tilkynningu úr ráðuneytinu hefur ráðherra fallist á beiðni hans um að það verði gert í áföngum.
Starfshópurinn var skipaður síðasta sumar og er verkefni hans að skoða og gera tillögur til ráðherra um nýtingu vindorku, um lagaumhverfi hennar og hvernig tekið verði á ýmsum álitamálum.
Niðurstöður starfshópsins munu hafa mikið um það segja hver afdrif hinna fjölmörgu vindorkuverkefna verða sem nú eru á teikniborðinu vítt og breitt um Ísland.
Í tilkynningu ráðuneytisins kom fram að ætlunin væri að skila fyrst samantekt þar sem dregin yrðu fram þau atriði sem starfshópurinn hefur verið að fjalla um og sem heppilegt kann að vera að fái opinbera umræðu, áður en endanlegar tillögur að lagabreytingum verði lagðar fram í vor.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn um hvenær von sé á fyrstu samantekt starfshópsins, kemur fram að gert sé ráð fyrir henni jafn fljótt og auðið er.
Starfshópinn skipa þau Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, formaður, Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og umhverfisráðherra, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður.