Fuglaflensa í Washingtonríki
Alifuglabændur í Bandaríkjunum hafa verið beðnir um að sjá til þess að fuglarnir þeirra komist ekki í samband við farfugla. Talið er að farfuglar geti borið með sér bráðsmitandi afbrigði af asískri fuglaflensu sem kallast H5N2.
Undanfarið hafa þrjú skæð tilfelli fuglaflensu komið upp í Washington-ríki í Bandaríkjunum sem talið er að hafi borist þangað með farfuglum. Auk þess sem komið hafa upp minni tilfelli í Oregon og Bresku Kólumbíu. Í öllum tilfellum var um að ræða fugla sem gátu athafnað sig undir berum himni og í öllum tilfellum var fuglunum fargað.
Yfirvöld hafa hvatt bændur til að ganga þannig frá aðbúnaði lausagöngufugla að sem minnst hætta sé á að þeir komist í samband við farfugla til að draga úr hættu á auknu smiti.
Tvö alifuglabú til viðbótar í Washington voru sett í átta mánaða einangrun fyrr í þessum mánuði og bannað að selja bæði egg og kjöt eftir að smit fannst í afmörkuðum hópi fugla.
H5N2 fuglaveiran er sögð bráðsmitandi og yfirleitt drepast fuglar sem af henni smitast eftir nokkra daga og ekki er langt síðan veiran drap nokkur þúsund fugla á búi í Kanada.
Í kjölfar tilfellanna í Washington-ríki hafa yfirvöld í Kína bannað allan innflutning á fuglakjöti og eggjum og skilað sendingum sem bárust til Kína eftir 8. janúar síðastliðinn.