Gæti endað í fangelsi fyrir að neita að úða með skordýraeitri
Vínræktandi í Búrgúndí-héraði í Frakklandi, sem leggur áherslu á lífræna ræktun, á yfir höfði sér allt að sex mánaða fangelsi og háa sekt fyrir að neita að úða akra sína með skordýraeitri.
Stjórnvöld hafa fyrirskipað vínræktendum í Búrgúndí-héraði að úða vínekrur sínar með skordýraeitri til að stemma stigu við bakteríusýkingu sem herjar á vínviðarplöntur í nágrenni héraðsins. Rök þess sem neitar að eitra er að það komi ekki til greina að eyðileggja jarðveginn með eiturefnum.
Bakterían sem um ræðir nefnist Flavescence dorée á latínu og drepur ungar vínviðarplöntur og dregur verulega úr þrótti og framleiðslugetu fullorðinna plantna. Bakterían berst milli plantna með skordýrum og því talið mögulegt að hefta útbreiðslu hennar með skordýraeitri.
Um 140 þúsund manns hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við bóndann auk þess sem fleiri ræktendur í héraðinu eru líklegir til að fylgja í fótspor hans.