Gamlar og nýjar ljósmyndir
Höfundur: Vilmundur Hansen
„The project Skagaströnd Review“ er rannsókna- og þróunarverkefni sem ljósmyndarinn Andrea Weder hefur unnið að undanfarið og felst í útgáfu ljósmyndaverks sem kallast Skagaströnd Review N0 1.
Verkið samstendur af nýlegum ljósmyndum Weber og eldri myndum sem eru í vörslu Ljósmyndasafns Skagastrandar og tengjast starfi Listamiðstöðvarinnar Nes frá stofnun hennar árið 2008. Framsetning myndanna í tímaritsformi er nýstárleg þar sem gömlum og nýjum tíma er skeytt saman á listrænan hátt. Verkefnið var að hluta unnið í Listamiðstöðinni Nes á Skagaströnd.
Andrea Weber er fransk-þýskur ljósmyndari og hönnuður frá Háskólanum í Essen í Þýskalandi og École Nationale Supérieure des Beaux Arts í París. Hún hefur komið reglulega til Íslands frá árinu 2009 og dvalið nokkrum sinnum í Listamiðstöðinni Nesi á Skagaströnd og er listrænn stjórnandi og verkefnastjóri hennar í dag. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis.