Gemlingurinn Frökk bar tveimur gimbrum
Sá fáheyrði atburður átti sér stað á bænum Eysteinseyri við Tálknafjörð að gemlingur sem kallast Frökk bar tveimur lömbum 27. mars síðastliðinn.
Frökk er fædd 15. maí 2014 og því innan við ársgömul. Marinó Bjarnason, bóndi á Eysteinseyri, segist hafa haft samband við Ólaf R. Dýrmundsson sem hefur rannsakað mest gangmál og burðartíma á íslensku sauðfé. „Ólafur sagðist ekki muna eftir að gemlingur fæddur á þessum árstíma hafi borið svona snemma.“
Annars er það að frétta af fjárstofni á Eysteinseyri að eftir fósturtalningu í mars töldust 179 fóstur í 73 fullorðnum ám og 21 gemlingi og engin í hópnum reyndist vera geld. Marinó segir að hugsanlega megi þakka þessa góðu frjósemi að nýlega var farið yfir allt rafmagn í fjárhúsunum og það lagað. „Rollurnar eru mun rólegri eftir að rafmagnið var tekið í gegn og þeim virðist líða betur.“