Getum stutt landbúnað betur
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, segir flest öll lönd í heiminum styðja við landbúnað með einhverjum hætti.
Íslensk stjórnvöld geti gert betur og ættu helst að horfa til Noregs, þar sem aðstæður eru sambærilegar.
Í erindi á baráttufundi Samtaka ungra bænda í liðinni viku sýndi Margrét gögn þar sem hún bar saman stuðning við nýliðun á Íslandi, Noregi og ESB. Í Noregi sé skattkerfið nýtt til að liðka fyrir ættliðaskiptum og hafi bújörð verið í eigu fjölskyldu í meira en tíu ár sé ekki greiddur fjármagnstekjuskattur þegar hún er seld til fjölskyldumeðlima.
Á Íslandi sé fjárfestingastuðningur til nýliða í landbúnaði mun lægri en í Noregi og ESB. Hér er hámarkið níu milljónir, eða að hámarki tuttugu prósent af heildarfjárfestingu. Í Noregi geti styrkurinn verið allt að fimmtíu prósent og allt að áttatíu prósent í löndum ESB og er hámarksupphæðin hærri en býðst íslenskum bændum. Þá sé nýliðunarstyrkur frádráttarbær hér á Íslandi ef sami aðilinn fær líka framkvæmda- eða fjárfestingarstuðning, sem Margrét telur afar sérstakt. „Stóra atriðið er að þegar er verið að tala um stuðning við landbúnað á Íslandi þá verði að huga að þeirri sérstöðu sem við búum við. Meðal annars hvað varðar landgæði, en þar erum við í raun mun líkari því sem þekkist í Noregi heldur en innan ESB. Þar af leiðandi gefur samanburður við stuðning innan ESB ekki rétta mynd.“
Margrét segir að samkvæmt opinberum gögnum sé stuðningur við landbúnað á Íslandi um eitt prósent af landsframleiðslu, sem sé hærra hlutfall en í samanburðarlöndum. Þær tölur séu þó rangar, því stuðningur við kynbótastarf í nautgriparækt hafi verið ofmetinn tífalt undanfarin ár vegna innsláttarvillu.
Það leiddi af sér skekkju upp á rúmlega einn og hálfan milljarð.
Þó talað sé um aðgerðir til að bæta þá stöðu sem er komin upp núna kallar Margrét eftir því að litið sé til lengri tíma og öll okkar nálgun á stuðning við landbúnað verði endurskoðuð. „Viðunandi afkoma er óhjákvæmileg forsenda eðlilegrar nýliðunar í landbúnaði eins og öðrum atvinnugreinum. Og til þess að tryggja afkomu – og þar með nýliðun – þarf tvennt að koma til: Annars vegar að ná niður framleiðslukostnaði og hins vegar aukinn opinber stuðningur.“