Glæsilegir hestar en líka ótrúlega margt annað á Landsmóti hestamanna í Reykjavík í júlí
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Landsmót hestamanna fer fram í Reykjavík dagana 1.-8. júlí næstkomandi. Þar verða á einum stað sýnd landsins fremstu kynbótahross og þar fer fram glæsileg gæðingakeppni.
Landsmót eru haldin á tveggja ára fresti, þau eru stærstu viðburðir sem haldnir eru í kringum íslenska hestinn og fjöldi erlendra gesta sækir landið heim sérstaklega til að koma á Landsmót. Alls er búist við um 10–12.000 gestum á mótið og þar af mun um fjórðungur koma erlendis frá.
„Það verða ekki bara frábærir hestar sem munu láta ljós sitt skína á Landsmóti í sumar. Samhliða þéttri keppnisdagskrá verður boðið upp á fjölbreytta hliðardagskrá þar sem fræðsla um allt sem tengist íslenska hestinum í glæsilegri aðstöðu sem verkefnið Horses of Iceland stendur fyrir. Þá verður tónlistin aldrei langt undan þegar hestafólk kemur saman og á Landsmóti verða bæði frábær gítarpartí og alvöru sveitaböll, segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri mótsins.
„Meðal þeirra sem fram koma eru Albatross með Sverri Bergmann, Röggu Gísla og Sölku Sól, Alex Ó og kántrýhljómsveit, Helgi Björns og reiðmenn vindanna, Stebbi Jak og Andri, Sigvaldi Helgi, Grétar og Hebbi, Dísella Lár. og Magni Ásgeirsson sem jafnframt er tónlistarstjóri mótsins. Þá verður á svæðinu risaskjár í tjaldi þar sem sýnt verður frá 16 liða og 8 liða úrslitum á HM í fótbolta sem fram fer í Rússlandi á sama tíma og Landsmót.
Landsmótið í sumar hefst á sérstökum fjölskyldudegi, sem er sunnudagurinn 1. júlí, en frítt verður inn á mótssvæðið þann dag. Þá hefst keppni í barna- og unglingaflokki og auk þess verða Jói P. og Króli á svæðinu, Leikhópurinn Lotta lítur í heimsókn og ýmislegt fleira skemmtilegt verður í boði. Alla mótsdagana verður svo opið sérstakt leiksvæði fyrir börn.
Áhugafólk um verslun og viðskipti fær nóg fyrir sinn snúð á glæsilegu markaðssvæði Landsmóts þar sem hægt verður að skoða og kaupa ýmiss konar varning, bæði hestatengdan og ekki.
Á svæðinu verður fjölbreytt úrval af mat, bæði í Reiðhöll Fáks sem verður breytt í matsal og eins úti þar sem fjölbreytt úrval af götumat verður í boði.
Tjaldstæði standa öllum mótsgestum til boða og auk þess geta gestir keypt sér aðgang að ákveðnum tjaldstæðareitum með rafmagnstengi.
Miðasala á Landsmót stendur yfir á vefnum landsmot.is og hjá tix.is og miðar fást á sérstöku forsöluverði til 15. júní. Hægt er að kaupa vikupassa og helgarpassa en á mótinu sjálfu verða jafnframt til sölu dagmiðar,“ segir Áskell.