GróLind kynnir niðurstöður: Um 39 prósenta beitarlands í slæmum ástandsflokkum
Fyrstu niðurstöður verkefnisins GróLindar voru kynntar í dag. Undanfarin tvö ár hefur á þess vegum verið unnið að þróun aðferða til að meta vistfræðilegt ástandi lands og kortleggja beitarlönd sauðfjár. Í fyrsta skipti liggur fyrir heildstætt yfirlit úr þessari vinnu og sýna gögnin að fjórðungur Íslands er í góðu ástandi, en um 45 prósenta landsins lendir í slæmum ástandsflokkum, samkvæmt flokkunarkerfi verkefnisins. Af beitarsvæðum landsins, sem alls eru 62 prósent af heildarflatarmáli Íslands, eru um 38 prósent í góðu ástandi en um 39 prósent í slæmu ástandi.
Þetta kom fram á kynningarfundi í Veröld - húsi Vigdísar og var einnig streymt í gegnum rás á YouTube. Þar kom einnig fram að hlutfall lands í verstu ástandsflokkunum aukist með hæð yfir sjó, líkt og við var að búast, þar sem að stöðumatið taki ekki tillit til mismunandi aðstæðna. Þannig séu svæði á hálendinu, þar sem vaxtarskilyrði gróðurs eru erfið, metin eftir sama kerfi og svæði á láglendi þar sem vaxtarskilyrði plantna eru góð. Einnig geri stöðumatið ekki greinarmun á svæðum þar sem lítil virkni vistkerfa stafi af náttúrulegum aðstæðum - eins og veðurfari eða eldgosi - eða vegna landnýtingar. Fljótlega verði unnin ný kortlagning sem taki tillit til þessara þátta.
Vefur Kortasjár Grólindar. Mynd / skjáskot
Það voru þau Bryndís Marteinsdóttir, verkefnisstjóri GróLindar, og Jóhann Helgi Stefánsson, sem er í vinnuhópi verkefnisins, sem kynntu fyrstu niðurstöður. Kortasjá verkefnisins var opnuð að loknum kynningarfundinum, en þar má sjá hvaða svæði eru nýtt til beitar á Íslandi og hvaða svæði hafa verið friðuð. Þar er einnig að finna stöðumat á ástandi lands eftir flokkunarkerfum GróLindar. Þar eru einnig skýrslur um verkefnin og glærur frá kynningarfundinum.
Vefviðmót Kortasjárinnar. Efri hlutinn er tvívíður, með skýringum og einkunnum en neðri hlutinn er þrívíddarkort.
Upplýsingum safnað frá 174 aðilum
Þessi fyrsta kortlagning er á grófum kvarða en gefur engu að síður gott yfirlit yfir ástand gróður- og jarðvegsauðlindarinnar og beitarsvæði landsins. Stöðumatið er unnið upp úr kortlagningu Náttúrufræðistofnunar Íslands á vistgerðaflokkum lands frá 2016 og kortlagningu á jarðvegsrofi á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslunnar frá 1997. Við kortlagningu á beitarlöndum sauðfjár var meðal annars safnað upplýsingum frá 174 aðilum sem hvað best þekkja fjallskilamálefni og sauðfjárbeit á hverju svæði.
Bryndís Marteinsdóttir verkefnisstjóri á kynningarfundinum í streyminu á YouTube.
Grólind er samstarfsverkefni Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtaka Íslands, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og Landgræðslunnar. Næsta skref verkefnisins er nákvæmara ástandsmat sem verður byggt á gögnum úr mælireitum, en útsetning þeirra hófst sumarið 2019. Almenningi gefst kostur á að taka þátt í vöktun landsins á næstu árum og einnig verður unnið að því að endurbæta kortlagning beitarsvæða með aðstoð heimafólks.