Hagræðing í slátrun og kjötvinnslu næst á dagskrá
Á málþingi á Degi landbúnaðarins var meginstefið vaxandi vandi landbúnaðarins og hvaða lausnir væru tækar til að mæta honum.
Sagði Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, að stýrivextir hefðu valdið umtalsverðum neikvæðum áhrifum í helstu kjöt- og mjólkurframleiðslugreinum. Síðustu tvö ár hefði fjármagnskostnaður aukist um hátt í fimm milljarða á þegar skuldsetta grein. Stærsta tækifæri stjórnvalda til að sporna gegn verðbólgu sé að setja aukið fjármagn í búvörusamningana.
Hagræða í slátrun og kjötvinnslu
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði (SAFL), sagði í framsögu að töluverðan samdrátt mætti sjá í lambakjötsframleiðslu og fækkun nautgripa síðustu misseri ylli áhyggjum. Bændur væru komnir að þolmörkum í hagræðingu hjá sér og eðlilegt væri að líta til annarra þátta.
„Ein skýrasta aðgerðin er að beina sjónum okkar að endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu,“ sagði Margrét. SAFL ásamt BÍ o.fl. hefðu barist fyrir því að kjötafurðastöðvar og vinnslum yrði veitt svigrúm til hagræðingar og samstarfs. Fimmtánda grein samkeppnislaga, sem heimili samvinnu, sé ekki nægjanleg enda skýr fordæmi erlendis frá um frekari heimildir.
„Nýting á sláturgetu í sauðfjárslátrun er 61%, en 31% í stórgripaslátrun, skv. tölum frá Deloitte árið 2021,“ hélt Margrét áfram. Ljóst væri að hægt sé að gera mun betur. Feta beri hér sömu slóð í hagræðingu og gert var í mjólkuriðnaði á sínum tíma.
Margrét gagnrýndi einnig að stækkun á markaði, m.a. vegna ferðamanna, væri mætt með innflutningi en ekki aukinni innlendri framleiðslu. „Stjórnvöld setja leikreglurnar en allt of lengi höfum við búið við aðrar reglur en þau lönd sem við erum að flytja inn kjöt frá. Undir er sjálfbærni, fæðuöryggi og byggðafesta,“ sagði Margrét.
Íslenski fæðuklasinn
Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra í Osló en í leyfi, kynnti Íslenska fæðuklasann, en hún leiðir undirbúning að stofnun hans. Ingibjörg sagði að með honum væri ekki síst verið að bregðast við búsetuáskorunum á landsbyggðinni. Henni hafi þótt vanta hvetjandi vettvang og umhverfi fyrir landbúnað og fæðutengda starfsemi til að koma góðum, verðmætaskapandi hugmyndum í réttan farveg með hvata, ráðgjöf og stuðningi og þannig m.a. að glæða sveitir landsins lífi.
Til stendur að stofna Íslenska fæðuklasann fyrir árslok. Hann á að ná yfir hvers kyns fæðu í landbúnaði og fæðutengdri starfsemi; yfir alla virðiskeðjuna: frá ræktun, framleiðslu og vinnslu, að sölu og neyslu. Fæðuklasinn á einnig að vera sjónarhóll yfir aðra starfandi klasa í landinu og byggja brýr og skapa möguleika á samstarfsverkefnum. Honum er ætlað að draga saman frumkvöðla, fyrirtæki og þolinmótt fjármagn til þess að skapa ný verðmæti.
Meðvitund almennings
Sölvi Arnarson, bóndi og veitingamaður í Efstadal II og einn framsögumanna, benti m.a. á að sárlega vantaði býli sem vildu taka á móti ferðafólki, fræða og bjóða upp á landbúnaðartengdar veitingar.
Þá kom fram í máli Hlédísar Sveinsdóttur, annars höfundar skýrslunnar Ræktum Ísland, sem grundvallar nýja landbúnaðarstefnu, að íslenskur almenningur þurfi að veita landbúnaði athygli, hann tengist fæðuöryggi og lýðheilsu, byggðafestu og umhverfismálum órjúfanlegum böndum. Almenningur þurfi einnig að hafa áhrif á þróun landbúnaðarafurða. Tengsl við smáframleiðendur séu þar hvað augljósust sem sóknarfæri.
Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa, sagði í umræðum: „Við metum það þannig í dag að staðan er gríðarlega alvarleg. Miklu alvarlegri en oft áður,“ sagði hann.
Á málþinginu kom fram hvatning um aukinn samtakamátt, staðreyndasýnileika og jákvæðni í umræðu út á við. Sjávarútvegurinn væri þar fyrirmynd. Sömuleiðis var bent á að landbúnaðurinn þyrfti með einhverjum hætti að mæta hinum upptekna nútíma-Íslendingi sem hefði í erli dagsins lítinn tíma til að undirbúa og sinna matargerð. Frosið læri í hnausþykku plasti væri t.a.m. ekki endilega til þess fallið að mæta þeirri áskorun.