Heildarsala á kjöti dregst saman
Sala á íslensku kjöti dróst saman um 7,5% í maí en þá voru seld rúmlega 2.176 tonn. Þá hefur verið samdráttur í heildarkjötsölu yfir heilt ár sem nemur 2,4%. Á sama tíma var aukning í sölu á kindakjöti.
Sala á alifuglakjöti er meiri en allt annað, en af því voru seld rúm 748,3 tonn í maí. Í öðru sæti var sala á svínakjöti sem nam tæplega 637,9 tonnum. Kindakjöt var í þriðja sæti en af því voru seld rúm 424,2 tonn.
Af nautgripakjöti voru svo seld tæp 347,4 tonn og tæp 18,3 tonn af hrossakjöti.
Samdráttur í kjötsölu en samt aukin kinda- og hrossakjötssala
Ef litið er á sölu yfir 12 mánaða tímabil lítur dæmið aðeins öðruvísi út. Þar kemur fram að 4,2% samdráttur hefur orðið í sölu á alifuglakjöti, en seld voru tæp 9.390 tonn. Um 4,2% samdráttur í sölu á svínakjöti, en því seldust rúm 6.514 tonn. Þá var 1,8% samdráttur í sölu á nautgripakjöti með heildarsölu upp á tæp 4.721 tonn. Um 1,6% aukning hefur hinsvegar orðið í sölu á kindakjöti og af því seldust tæp 7.060 tonn.
Einnig var 0,6% aukning í sölu á hrossakjöti, en af því seldust tæp 696 tonn.