Heimasmíðuð girðingavinda
Hjörtur Hlíðar Friðriksson, bóndi í Skóghlíð í Hróarstungu, tók nýverið í notkun sérstaka vél til að hreinsa upp gamlar girðingar.
Tækið smíðaði hann sjálfur frá grunni fyrir tveimur árum og hafa tilraunir sýnt góða virkni.
Hjörtur líkir virkni vélarinnar við afrúllara sem settur er á ámoksturstæki. Á henni er glussamótor úr pökkunarvél sem snýr kefli. Vélinni er hægt að beita frá báðum hliðum, eftir því sem hentar hvoru sinni. Notandinn keyrir svo dráttarvélina meðfram girðingunni og vindur hana upp.
Mjög auðvelt er að losa járnaruslið af keflinu með því að losa endann á keflinu. Þá er hægt að beita ámoksturstækjunum til að hrista vírana af.
Girðingin er dregin í gegnum rauf milli tveggja stálprófíla sem leysir alla staura frá. Þar með er hægur leikur að aðgreina sorpið í viðeigandi flokka þegar því er skilað til endurvinnslu.
Hjörtur hefur ekki mælt nákvæmlega hver afköst vélarinnar eru, en reiknar með að geta hreinsað upp einn kílómetra af girðingu á klukkustund ef landið er sæmilega gott yfirferðar.