Hretið seinkar vorverkum
Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhrif á garðyrkjubændur að seinkun verður á öllum venjulegum vorverkum, sem mun mögulega leiða til minni uppskeru í haust.
Jón Helgi Helgason á Þórustöðum í Eyjafirði er kartöflubóndi sem situr í stjórn deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands. „Það voraði seint á þessum svæðum, leiðinda kuldi og snjókoma var í apríl og hefur klaki í jörð verið töluvert vandamál. Hann byrjaði seint að fara úr jörð og mögulega enn ekki farinn á sumum svæðum,“ segir Jón Helgi. „Það hefur því kannski verið lán í óláni að margir bændur voru seinna á ferðinni með niðursetningu og útplöntun eða sáningu á grænmeti og hafði hretið í síðustu viku minni áhrif en ella. Hins vegar hefur þetta hret þau áhrif að öllu seinkar og veldur það seinkun á uppskeru og jafnvel minni uppskeru en vanalega.
Jörðin er enn mjög blaut og erfitt að komast um akrana en við vonum að það þorni á næstu dögum og þá verður hægt að ljúka við vorverkin,“ útskýrir Jón Helgi. „Ég hef ekki heyrt af frostskemmdum á kornökrum en mögulega getur öll þessi bleyta sem stendur uppi í pollum hafa drekkt einhverjum hluta af því.“