Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir,  iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Fréttir 15. maí 2018

Iðnaðarráðherra skipar starfshóp sem ætlað er að fara yfir raforkumál garðyrkjunnar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir,  iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, skipaði nýverið starfshóp sem ætlað er að fara yfir raforkumál garðyrkjunnar.

Samkvæmt skipunarbréfinu er hlutverk starfshópsins að kortleggja þróun framleiðslukostnaðar garðyrkju­bænda og hlut raforku í honum, kortleggja þróun gjaldskrárbreytinga, taxta og niðurgreiðslna vegna raforku­notkunar garðyrkjubænda og bera saman við nágrannalönd. Kanna möguleika til aukinnar nýsköpunar, þróunarverkefna og samstarfs sem byggir á sérstöðu garðyrkju, sem m.a. geti leitt til lægri framleiðslukostnaðar, (til dæmis orkusparnað með innleiðingu LED lýsingar) Einnig að kanna hvaða möguleikar og verðmæti kunni að felast í kolefnisfótspori garðyrkjunnar, eða öðrum loftslagstengdum áherslum. Til dæmis þátt upprunaábyrgða í því samhengi og kostnað af þeim ef einhver er.

Starfshópinn skipa

Starfshópinn skipa Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, formaður, Knútur Rafn Ármann, tilnefndur af Sambandi garðyrkju­bænda, Gunnar Þorgeirsson, tilnefndur af Sambandi sunn­lenskra sveitarfélaga, dr. Guðbjörg Óskarsdóttir, tilnefnd af Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Pétur E. Þórðarson, tilnefndur af RARIK.

Bakgrunnsupplýsingar fyrir starfshópinn

Í skipunarbréfi starfshópsins kemur fram að raforkumál garðyrkjubænda hafa um langt skeið verið til umræðu og skoðunar, enda raforka stór þáttur í rekstrarkostnaði hjá garðyrkjubændum.

Garðyrkjubændur hafa frá árinu 2005 haft samning við stjórnvöld um að ríkisvaldið greiði niður flutning og dreifingu á raforku til lýsingar í ylrækt. Í reynd hefur þetta verið þannig að garðyrkjubændur greiða fyrir notkun orkunnar en ríkið hefur greitt flutning og dreifingu niður um 95%. Fjárlagaliðurinn heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hefur atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið áskilið sér rétt til að breyta hlutfalli niðurgreiðslna til samræmis við fjárveitingar á Alþingi hverju sinni.

Upphaflega var niðurgreiðslu­hlutfallið 95% en fór lækkandi og var árið 2013 komið í 76% í þéttbýli og 84% í dreifbýli. Árið 2014 voru niðurgreiðslurnar auknar á fjárlögum og fór hlutfallið þá í 87% í þéttbýli og 92% í dreifbýli. Árið 2017 var hlutfallið 86% í þéttbýli og 91% í dreifbýli. Í lok árs 2017 var garðyrkjubændum tilkynnt að niðurgreiðsluhlutfall í þéttbýli verði 64,8% og dreifbýli 69,2% frá 1. janúar 2018.

Þrenns konar kostnaðarþættir

Raforkuverð til garðyrkjubænda samanstendur af þremur þáttum, flutningi, dreifingu og sjálfri orkunni. Flutningskostnaður er eins fyrir alla. Það sem hefur verið til skoðunar er hvernig unnt sé að lækka kostnað við dreifingu raforkunnar.

Til þess hafa í grunninn verið tvær leiðir. Önnur er sú að auka framangreindar niðurgreiðslur með viðbótarframlagi úr ríkissjóði. Hin leiðin er sú að reyna að hafa áhrif á gjaldskrársetningu dreifiveitna, til dæmis með því að breyta reglugerðum.

Með reglugerðarbreytingu nr. 259/2012 var komið til móts við óskir garðyrkjubænda varðandi skilgreiningar á þéttbýli og dreifbýli, sem leiddi til aukins möguleika garðyrkjubænda að vera á hagstæðari gjaldskrá dreifiveitna.

Frekari hugmyndir um reglugerðarbreytingar hafa verið ræddar en hafa ber í huga að jafnræðissjónarmið raforkulaga setja ákveðnar skorður í þessu sambandi og erfitt út frá almennum jafnræðisreglum, og raforkutilskipunum ESB, að heimila sér gjaldskrá fyrir einn hóp raforkunotenda.

Aðrar leiðir

Um nokkurt skeið hafa verið til skoðunar aðrar leiðir en auknar niðurgreiðslur eða sérsniðnar reglugerðarbreytingar, til að mæta þörfum og sjónarmiðum garðyrkjubænda. Bent hefur verið á að til lengri tíma er óheppilegt að þessi atvinnugrein sé háð árlegum ákvörðunum Alþingis um niðurgreiðslur og að sama skapi eru lagaleg takmörk fyrir því hversu mikið hægt er að sérsmíða regluverk gjaldskrármála dreifiveitna fyrir einn viðskiptavinahóp. Hafa ber í huga að dreifiveitur eru háðar tekjumörkum sem þeim eru settar af sjálfstæðu raforkueftirliti Orkustofnunar og hefur ráðuneytið enga aðkomu að því ferli. 

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...