Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Innflutningur á óunnu kjöti jókst um 333 prósent frá 2007 til 2019
Mynd / Bbl
Fréttir 19. nóvember 2020

Innflutningur á óunnu kjöti jókst um 333 prósent frá 2007 til 2019

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Samkvæmt skýrslu starfshóps, sem falið var að greina þróun tollverndar og stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, jókst innflutningur landbúnaðarafurða verulega frá 2007 til 2019.  Í sumum tilfellum margfaldaðist innflutningurinn. 

Aukningin var mest í óunnum kjötvörum, eða 333%, en sala á innlendri framleiðslu jókst á sama tíma um 15%. Innflutningur á unnum kjötvörum jókst á þessu tímabili um 110% að magni til.

Innflutningur á hakkefni hefur stóraukist 

Starfshópurinn bendir á að stór hluti innflutnings á síðari helmingi tímabilsins er einkum nautahakkefni og að einhverju leyti nautalundir, en opnað var á tollkvóta á ákveðnum tímabilum vegna skorts á framboði á markaði. Vekur stóraukinn innflutningur á kjöti sem skilgreint er sem hakkefni í innflutningsskýrslum óneitanlega athygli sem hlýtur að leiða til frekari skoðunar. Ekki liggja fyrir nákvæm gögn um innflutning í gegnum þessa tollkvóta að því er fram kemur í skýrslunni, en þegar innflutningsgögn eru skoðuð eftir mánuðum má sem dæmi áætla að innflutningur á þessum tollkvótum hafi verið allt að 990 tonn árið 2015 og 320 tonn árið 2016.

Ekki tekin afstaða til ruðningsáhrifa 

Ekki er lagt mat á það í skýrslunni hvort stóraukinn innflutningur og lægri tollar hafi haft ruðningsáhrif í íslenskum landbúnaði eða leitt til hægari framleiðsluaukningar en annars hefði orðið. Tölur í skýrslunni virðast þó benda til að svo sé. Hins vegar er í skýrslunni sagt að frá árinu 2011 hafi innflutningur verið umfram það magn sem í boði er að flytja inn á tollkvótum. Þegar vörur eru fluttar inn umfram tollkvóta er lagður á þær tollur, ýmist almennur tollur eða lægri tollur skv. viðskiptasamningum. 

Tollar utan tollkvóta á kjöti 40% lægri en almennt gerist

Í skýrslunni er sagt að ljóst sé að hlutdeild innflutnings hafi aukist á kjötmarkaði síðustu ár. Hlutfall innflutnings var á bilinu 4%–6% á fyrstu þremur árum tímabilsins, en 14%–17% á síðustu þremur árunum.

Mikill meirihluti innflutnings á kjöti utan tollkvóta í 2. kafla tollskrár er fluttur inn frá ESB-ríkjum. Eru tollar þá 40% lægri en almennur tollur. Á ostum og unnum kjötvörum eru ekki aðrar ívilnanir en tollkvótar. 

Aukinni eftirspurn mætt að mestu með innflutningi

Hlutfall verðmætis innflutnings af framleiðsluvirði innanlands hefur samhliða auknum innflutningi hækkað úr 3–6% fyrstu ár tímabilsins í 12–15% 2018 og 2019. Aukinni eftirspurn hefur þannig verið mætt að meira leyti með innflutningi frekar en innlendri framleiðslu.   

Aukinn svínakjötsinnflutningur

Markaðshlutdeild innflutnings svínakjöts hefur aukist á tímabilinu. Árið 2007 var hún í kringum 5% en er á bilinu 20–24% árið 2019.  

„Aukningu á seinni hluta tímabilsins má að miklu leyti rekja til opinna tollkvóta á svínasíðum, sem helst í hendur við fjölgun ferðamanna og neyslu þeirra á beikoni. Áætlaður innflutningur á opnum tollkvótum árin 2015 til 2018 er á bilinu 250–970 tonn,“ segir í skýrsl-unni.

Innflutningur á alifuglakjöti jókst

Innflutningur á kjúklingakjöti hefur aukist á árunum 2007 til 2019, líkt og á nauta- og svínakjöti, en þó heldur minna. Um þetta segja skýrsluhöfundar:

„Mögulega má það rekja til þess að ekki þótti þörf á að opna á tollkvóta á tímabilinu. Tollkvótar eru nú orðnir samtals 1.115 tonn sem er rétt undir því magni sem flutt hefur verið inn árin 2017 til 2019. Þá er meðtalinn 200 tonna tollkvóti fyrir lífrænt ræktað og lausagöngu kjúklingakjöt. Markaðshlutdeild innflutnings er mæld á sama hátt og fyrir svína- og nautakjöt og er aðeins á bilinu 2–4% árið 2007 en er á bilinu 13–17% árið 2019. Sala á innlendum afurðum var um 7.500 tonn árið 2007 en var orðin 9.800 tonn árið 2019. Á sama tíma jókst innflutningur úr 177 tonnum í 1.283 tonn.“  

136% aukning í mjólkurvörum

Innflutningur á mjólkurvörum jókst um 136%, að miklu leyti vegna osta.  Innvegin mjólk frá bændum hefur á sama tíma aukist um 23%. Mikil umfjöllun hefur einmitt verið um meint svindl við tollafgreiðslu varðandi ostainnflutning. 

Minnst var aukningin á innflutningi á plöntum, eða um 27%, en gögn um heildarmagn innlendrar framleiðslu lágu ekki fyrir við gerð skýrslunnar. 

Stóraukinn innflutningur á grænmeti samfara samdrætti í innlendri framleiðslu

Innflutningur á grænmeti hefur aukist um 45%, en athyglisvert er að sala á innlendu grænmeti hefur á sama tíma dregist saman um 20%. Þar vegur 34% sölusamdráttur í kartöflum þyngst en einnig um 20% samdráttur í tómötum. Framleiðsla getur hins vegar sveiflast nokkuð milli ára vegna tíðarfars. Á þessu tímabili, frá 2007 til 2019, jókst íbúafjöldi um 11% hér á landi og ferðamönnum fjölgaði um 337%. 

Skylt efni: kjötinnflutningur

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...