Íslenskir bændur – takk fyrir snyrtilegar sveitir
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Eflaust hafa margir lent með hugann fastan við laglínu sem er hreinlega föst í huganum í heilan dag eða meira.
Í síðustu viku ók ég hring um landið og í stað þess að keyra hefðbundinn hring sem oftast er nefndur Þjóðvegur 1 tók ég nokkra auka kílómetra um sveitir, annes og fáfarna firði og úr varð 2.200 km rúntur á sjö dögum. Stuttu áður en ég lagði upp í þetta ferðalag sá ég myndband með Halla Reynis og Vigdísi þar sem þau sungu lag eftir Halla sem ber nafnið „Fjúkandi rúlluplast“. Daglega alla ferðina kom þessi laglína upp í hugann þegar ég ók um sveitir landsins og sá heyrúllur í stafla.
Mikill munur á ásýnd sveita nú og fyrir örfáum árum
Á hverju ári í nokkur ár hef ég ekið einn eða fleiri hringi í kringum landið ósköp svipaða leið, en samt alltaf farið á staði hluta leiðar þar sem ég hef ekki komið áður. Þó svo að í huga mínum hafi síðastliðna viku alltaf verið þessi laglína um fjúkandi rúlluplast, er ekki þar með sagt að sú hafi verið sýnin sem við mér blasti.
Vissulega sá ég fast í girðingum flaksandi rúlluplast sem betur hefði verið í Endurvinnslunni, en að ferðast nú um landið og fyrir nokkrum árum er stór munur. Ekki er hægt annað en að hæla bændum almennt fyrir mikla snyrtimennsku, séða frá þjóðvegum. Hins vegar þar sem ég sá rúlluplast fast í girðingum var þetta oftar en ekki á nokkrum bæjum í röð, en á öðrum stöðum ók maður í gegnum heilu sveitirnar og sá þá hvergi í neinni girðingu rúlluplast í girðingum.
Víða verið að taka til í járnaruslahaugum og annars staðar var ruslinu stillt upp sem skrauti
Einnig hefur járnaruslahaugum sjáanlegum ferðamönnum fækkað en á nokkrum stöðum mátti sjá slíka hauga sem greinilega voru að bíða örlaga sinna, tilbúnir að vera settir í næsta járnagám til endurvinnslu. Ryðguð vinnutæki frá fyrri part síðustu aldar hafa alltaf verið eitthvað sem heillar mig og að sjá svoleiðis tækjasafn snyrtilega raðað og aðgengilegt til að skoða hefur ósjaldan verið tilefni hjá mér til að stoppa og virða fyrir mér þessi fyrrum þörfu tæki, sem þóttu svo ómissandi fyrir um 60–100 árum. Víða má sjá svona tæki í fjarlægð við vegi landsins og ýmislegt annað þar saman við. Með smá vinnu má oft gera það sem virðist rusl og drasl að lystigarði fyrir þá sem hafa gaman af gömlu „ryðguðu dóti“ og vilja njóta þess.
Listaverk og blómapottar
Allavega þegar mér var hugsað til síðustu 10 ára er landið alltaf að verða fegurra og skemmtilegra til ásýndar þegar ferðast er. Vil ég almennt þakka bændum fyrir dugnað við að fegra sitt nánasta umhverfi og skreytingar með gömlum munum og tækjum síðustu árin.
Að lokum verð ég að nefna eitt sem vakti athygli mína og ánægju. Það er að í ferðaþjónustunni að Langaholti hefur verið safnað saman ýmsum gömlum munum og gróðursett nytjajurtir í eitt horn við húsið þar sem gestir gjarnan njóta kvöldsólar, Whisky og vindla. Í þessum pottum fann Tjaldur sér hreiðurstæði og nýtur skjólsins þarna í horninu liggjandi á eggjum sínum. Hann gerir sér þó annaðhvort upp mannamun, eða er vandfýsinn á tegund vindla, því að á suma lítur hann varla og liggur sem fastast á eggjunum, en á aðra gellur hann á með skerandi hávaða.