Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fréttir 20. ágúst 2018
Kínverski mjólkurvörumarkaðurinn
Höfundur: Snorri Sigurðsson
Undanfarin ár hefur efnahagur í Kína tekið miklum stakkaskiptum og með bættum hag hafa neysluvenjur Kínverja gjörbreyst. Áður fyrr voru mjólkurvörur, kjötmeti og fiskur ekki hátt hlutfall af því sem fólk lét ofan í sig en nú orðið eykst neyslan, mælt í kílóum á hvern íbúa landsins, ár frá ári. Þessi breyting hefur ekki einungis kallað á breytta landbúnaðarframleiðslu og landbúnaðarstefnu í Kína heldur hefur einnig haft mikil áhrif á heimsviðskipti með landbúnaðarvörur almennt. Verður hér farið yfir kínverska landbúnaðinn og áhrifin á heimsmarkaðinn, eins og þau blasa við greinarhöfundi sem starfar við landbúnaðarráðgjöf í Kína, á helstu framleiðslugreinarnar og í þessum fyrsta hluta umfjöllunarinnar verður mjólkurvörumarkaðurinn tekinn fyrir.
Mikil framleiðsluaukning framundan
Mjólkurframleiðsla heimsins er talin þurfa að aukast í kringum 60% á næstu 40 árum til þess að hafa í við neysluþróunina á heimsvísu og miklar breytingar á neysluvenjum í Kína standa undir miklum hluta af þessari reiknuðu framleiðsluþörf á komandi áratugum. Fyrir liggur að hin stóru útflutningssvæði mjólkurinnar, þ.e. Nýja-Sjáland, Evrópusambandið og Bandaríkin, munu ekki eiga auðvelt með að sinna þessari miklu framleiðsluþörf ein og sér og munu mörg önnur framleiðslusvæði þurfa að auka framleiðsluna verulega. Þessari miklu breytingu fylgir jafnframt aukið umhverfisálag framleiðslunnar sem vissulega er áhyggjuefni en það er þó ekki það sem fólk í Kína veltir mikið fyrir sér í dag, enda gleðst það yfir hverjum degi sem það getur fengið sér drykkjarjógúrt eða ís. Neyslan er nefninlega sáralítil í raun, ef hún er borin saman við neyslu t.d. okkar sem búum í norðanverðri Evrópu.
Kínverjar neyta um 36 kg af mjólk á mann á ári.
1 = 4285
Vandamálið, ef vandamál skyldi kalla, er hins vegar að Kínverjar eru svo ótrúlega margir að þegar markaðsfyrirtækjum tekst að hafa áhrif á neysluvenjur í Kína, þá eykst heimseftirspurnin gríðarlega mikið. T.d. vegur hver viðbótar íspinni afar þungt í Kína, enda íbúarnir taldir um 1,5 milljarðar talsins og til að setja það í samhengi við okkar stöðu þá svarar einn lítill íspinni á mann í Kína til þess að hver Íslendingur fengi sér rúmlega fjögur þúsund íspinna. Í hvert skipti sem neyslan eykst í Kína, þá er aukningin mæld í hundruðum eða þúsundum tonna á heimsvísu svo áhrif þeirra eru augljóslega mikil.
Mikill skellur árið 2008
Neysluaukningin í Kína er ekki ný af nálinni og hefur vaxið jafnt og þétt undanfarna áratugi og framleiðslan hefur þróast með á sama tíma. Árið 1961 nam landsframleiðslan um 2 kílóum mjólkur á hvern íbúa en neyslan hefur síðan margfaldast og heimaframleiðslan gat framan af náð að sinna hinni auknu eftirspurn. Neyslan á hvern íbúa var ekki mikil og verðið sem bændurnir fengu fyrir hvern lítra af mjólk líklega með því hæsta sem þekktist í heiminum. Árið 2008 gerðist það hins vegar að kínverski mjólkuriðnaðurinn varð fyrir miklu áfalli er í ljós kom að nokkrir söfnunaraðilar mjólkur höfðu blandað melamíni út í mjólkina til að hækka próteinmælingargildi hennar. Skömmu áður fengu allir bændur bara eitt verð fyrir mjólkina, þ.e. ef sýrustig hennar var í lagi þá fékk bóndinn fullt verð. Svo fóru auknar gæðakröfur að koma jafnt og þétt en búskapurinn í Kína var enn þannig að flestir bændur voru með örfáar kýr og seldu mjólk sína til söfnunarfyrirtækja sem svo seldu mjólkina áfram til vinnsluaðila. Þessir milliliðir sáu sér leik á borði þegar farið var að mæla prótein í mjólk. Fyrst keyptu þeir mjólkina af bændunum með því prótein innihaldi sem var í mjólkinni frá viðkomandi búi og eftir kaupin var melamininu bætt við og þá var mjólkin seld áfram til afurðastöðvarinnar. Á þeim tíma grunaði líklega engan að þetta myndi valda alvarlegum eitrunum hjá ungabörnum og að þetta myndi leiða til dauða nokkurra þeirra. Því miður var þó það sem gerðist og í kjölfarið snarféll álit neytenda á kínverskri mjólkurframleiðslu. Allir lágu undir grun um að vera að svindla og þó svo hið sanna kæmi í ljós síðar, var það of seint og bæði bændur og afurðastöðvar sátu eftir með skerta ímynd.
Uppbyggingin
Fram að tímamótaárinu 2008 hafði mjólkurverð í Kína verið svo hátt að kúabændur gátu lifað af því að vera með örfáar kýr og allt kerfið í kringum bændurna var bæði dýrt, óhagstætt að uppbyggingu og yfirfullt af milliliðum en allir lifðu góðu lífi vegna hins háa mjólkurverðs svo það var enginn sem svo mikið sem velti því fyrir sér að hagræða. Eftir áfallið varð hins vegar í raun gjörbreyting á bæði kúabúskapnum og framleiðslunni í Kína. Í fyrsta lagi hrundi afurðastöðvaverðið og minni kúabúin hættu hvert af öðru og í dag fer þeim snarfækkandi enn. Þá lögðu bæði stjórnvöld og afurðastöðvar áherslu á að fylgja mjólkurframleiðslunni miklu betur eftir en áður og töldu það best gert með því að koma á fót svokölluðum stórbúum. Stórbú eða „megafarms“ eru þau bú sem eru með 5 þúsund kýr eða fleiri. Uppbygging á svona búum er styrkhæf en litlu búin fá nánast enga slíka aðstoð.
Ná ekki að anna eftirspurninni
Í dag er umreiknuð mjólkurvöruneysla Kínverja, yfir í kíló mjólkur, um það bil 36 kg á hvern íbúa landsins eða um 50 milljarðar lítra alls. Þar af ná kúabúin í landinu að framleiða um 80% eða um 40 milljarða lítra á ári en restin er svo flutt inn til landsins víða að úr heiminum. Árið 2016 námu heildarverðmæti innfluttra mjólkurvara til Kína 6,7 milljörðum bandaríkjadala eða um 713 milljörðum íslenskra króna! Um 49% af þessari upphæð stafaði af innflutningi frá löndum Evrópusambandsins en Nýja-Sjáland eitt og sér ber þó höfuð og herðar yfir einstök lönd en þriðjungur verðmætanna var þaðan. Önnur lönd eru mun smærri en hlutdeild ástralskra afurðastöðva í innflutninginum var 6,9% og Bandaríkin voru svo með 6,2% af verðmætunum.
Jógúrtin selst best
Tvö kínversk afurðafyrirtæki berjast aðallega um hylli kínverskra neytenda en það eru Yili og Mengniu, bæði að stærstum hluta í eigu hins opinbera. Bæði fyrirtækin eru nokkuð ung að árum en hafa vaxið gríðarlega hratt eins og mörg önnur kínversk fyrirtæki og eru þau í dag meðal 10 stærstu afurðafyrirtækja í heimi! Sé litið til einstakra mjólkurvara þá er það hefðbundið jógúrt og drykkjarjógúrt sem gengur best í Kínverjana en aðrar mjólkurvörur eru einnig í miklum vexti eins og t.d. notkun á mjólkurdufti fyrir ungabörn. Sá markaður er afar eftirsóttur af erlendum fyrirtækjum enda mun auðveldara að flytja mjólkurduft til Kína en ferskar mjólkurvörur, enda geymsluþolið allt annað. Þá hafa Kínverjar áttað sig á kostum þess að nota ost við matargerð og hefur innflutningur á osti til matargerðar tekið stakkaskiptum á síðustu þremur árum og nú eru nokkrar afurðastöðvar í Kína einnig byrjaðar að framleiða osta.
Allir vilja bita af kökunni
Það er afar fróðlegt að fylgjast með störfum alþjóðlegra fyrirtækja í Kína en greinarhöfundur starfar einmitt hjá einu slíku. Það vilja eðlilega allir komast að neyslukökunni í Kína og fá sinn skerf en það er hægara sagt en gert og Kínverjar sjálfir vilja helst sinna sínum heimamarkaði. Meira að segja ríkisstjórnin hefur nú sett það markmið fram að innflutningur fari ekki yfir 25% af neyslunni, en það eru talin öryggismörkin með fæðuöryggi þjóðarinnar í huga. Fjórðungurinn af markaðinum í Kína er engu að síður all góð stærð af markaði og er t.d. talið innan fimm ára þá muni innflutningur mjólkurvara til Kína verða sá umsvifamesti í heiminum. Ástæða þess að markaðurinn í Kína er svona eftirsóttur er að vegna lítillar neyslu framan af þá varð til í Kína einhverskonar hávöruverðsmarkaður. Nýríkir Kínverjar keyptu mjólkurvörur á uppsprengdu verði og það kallaði á enn frekari innflutning á framlegðarháum mjólkurvörum og framleiðslu í Kína á mjólkurvörum sem voru seldar á afar háu verði. Enn þann dag í dag svipar markaðssetningu mjólkurvara í Kína til markaðssetningar á ilmvötnum eða öðrum lúxusvörum, þar sem t.d. þekktir leikarar eða heimsþekktir íþróttamenn eru notaðir við auglýsingarnar. Þá er mikið lagt í umbúðahönnun og útlit varanna, mun meira en sést í öðrum löndum.
Framleiðslukostnaður enn hár
Þrátt fyrir mörg stór kúabú, þá er framleiðslukostnaður mjólkur í Kína enn langtum meiri en mörgum öðrum löndum. Skýringin felst fyrst og fremst í því að innviðir framleiðslunnar eru enn hálf laskaðir eftir framangreindan uppgangstíma og enn eru margir milliliðir á milli kúabændanna sjálfra og frumframleiðenda á hráefnum sem nota þarf. Fæst búin eru með eigin gróffóðurframleiðslu og þurfa að kaupa nánast allt að. Stærsti hluti gróffóðursins er þó framleiddur í Kína og oftar en ekki kemur fóðrið frá örsmáum landspildum en afar algengt er að eldra fólk ráði yfir svokallaðri „mú“ sem er kínversk mælieining lands og svarar til 1/15 af hektara. Hvert kúabú þarf svo að semja við hverja fjölskyldu um að fá t.d. gras eða maísvothey frá viðkomandi spildu og eins og gefur að skilja þarf marga slíka samninga svo náist í eitt kýrfóður svo ekki sé nú talað um það ef viðkomandi kúabú er með fleiri þúsund kýr. Þetta kínverska kerfi hefur án nokkurs vafa áhrif til hækkunar á grófóðrinu en þess utan þarf að kaupa viðbótarfóður erlendis frá eins og refasmára og soja.
Fjárfestingar erlendis
Ein af þeim leiðum sem kínverskir fjárfestar hafa farið undanfarin ár, er að fjárfesta í landbúnaði utan Kína og flytja svo framleiðsluvörurnar heim til Kína. Þessi leið hefur verið farin af mörgum bæði vegna ákveðinna erfiðleika við framleiðslu á landbúnaðarvörum í Kína en einnig einfaldlega vegna gríðarlega sterkrar stöðu bæði sumra einstaklinga og fyrirtækja í landinu. Kínverjar geta ekki fjárfest í landi í Kína, það er einfaldlega ekki hægt og allt land tilheyrir hinu opinbera og landbúnaðarland er líklega það allra verðmætasta sem hægt er að fjárfesta í til lengri tíma litið, enda fara stærri og stærri landssvæði undir annað en landbúnað og hið minnkandi landbúnaðarland heimsins þarf að brauðfæða æ fleiri íbúa. Ákvörðun fjársterkra kínverskra aðila um að fjárfesta í góðu landbúnaðarlandi er því skiljanleg og þannig eru t.d. margar jarðir í Bandaríkjunum nú í eigu Kínverja. Þar eru þær helst nýttar til framleiðslu á refasmára en hátt heimsmarkaðsverð á refasmára, þar sem bandarískir seljendur hafa verið alls ráðandi, hefur einfaldlega ýtt Kínverjum út í fjárfestingar í Bandaríkjunum og nú framleiða þeir meira og meira af refasmáranum sjálfir og senda hann svo heim til Kína.
Áframhaldandi vöxtur
Það er ekki nokkur vafi á því að mjólkurframleiðslan í Kína mun halda áfram að vaxa og dafna í takti við aukna neyslu, en að sama skapi heldur markaðurinn fyrir innfluttar vörur einnig áfram að stækka þar sem enginn gerir í raun ráð fyrir að kínversku kúabúin muni nokkurn tímann ná að sinna öllum markaðnum. Forsvarsmenn stærstu kínversku afurðastöðvanna hafa þegar gert sér grein fyrir þessu og sjást þess merki í nokkrum öðrum löndum eins og Hollandi, Nýja-Sjálandi og Ástralíu þar sem þær eru nú að koma sér fyrir líka. Tilgangurinn er nokkuð skýr og í raun sama aðferð og þegar er beitt til þess að skaffa refasmára á betra verði, þ.e. þær ætla sér einnig hlutdeild í síðasta fjórðungnum, þ.e. taka til sín bita af af innflutningskökunni. Það verður þó alltaf pláss fyrir innfluttar vörur frá afurðastöðvum frá öðrum löndum, markaðurinn í Kína er einfaldlega svo gríðarlega stór.