Kjötsala eykst um 8,6%
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Sala á kjöti síðustu 12 mánuði er 8,6% meiri en árið á undan. Sala á kindakjöti í júlí var 1,7% meiri en í júlí í fyrra. Kjúklinga- og svínakjöt er í sókn en samanburðurinn þar milli síðustu 12 mánaða og sama tímabils þar á undan sýnir 8,4% og 8,3% söluaukningu. Miklar breytingar eru á framleiðslu og sölu á nautgripakjöti.
Þetta kemur fram í nýju söluyfirliti Matvælastofnunar. Sala á innfluttu kjöti er ekki inni í talnasafni MAST.
Sala á íslensku nautgripakjöti síðustu 12 mánuði er tæpum 30% meiri en 12 mánuðina þar á undan. Kúabændur hafa nú dregið úr mjólkurframleiðslu og afsett gripi í meira mæli en áður. Þá er líklegt að þeir hafi sett aukinn kraft í kjötframleiðsluna á móti minnkandi tekjum af mjólkinni. Þann 1. júlí var hætt að greiða mjólkurframleiðendum sama verð fyrir mjólk sem framleidd er innan og utan greiðslumarks.
Á sama tíma og innanlandsframleiðsla á nautakjöti hefur aukist hefur innflutningur dregist saman. Fyrstu 6 mánuði ársins hefur innflutningsmagn minnkað um tæp 50% en verðmæti aðeins dregist saman um rúm 12%. Innlenda framleiðslan er með stærri hlut af markaðnum en áður en þó er áfram aukning í innflutningi á lundum, eða dýrasta hluta nautsins. Mun minna er flutt inn af hakkefni en áður.
Í kindakjötinu reyndist fyrri hluti ársins mjög góður en söluaukning var rúm 8% fyrstu 6 mánuði ársins. Það er nær allt vegna innanlandssölu, en selt magn á tímabilinu var 270 tonnum meira í ár en í fyrra, en útflutningurinn var nánast sá sami.