Konur eru með 1,1% hærri laun en karlar
Nýlega var gerð viðhaldsúttekt hjá Bláskógabyggð á launum starfsmanna.
Viðhaldsúttekt er það þegar sveitarfélög, sem hafa fengið jafnlaunavottun, fara í gegnum úttekt árlega til að viðhalda vottuninni. Í úttektinni kom fram að munur á launum kynjanna er þannig að konur eru með 1,1% frávik frá meðaltalinu, það er að segja 1,1% hærri laun en karlar.
„Þetta þarf auðvitað að skoða í því ljósi að konur eru meirihluti starfsmanna, en það er samt sem áður verið að bera saman sömu og jafnverðmæt störf. Fylgnin 96,5% er eiginlega mælikvarði á hversu marktæk úttektin er, þetta er mjög hátt á þeim skala, þannig að þetta er vel marktæk niðurstaða,“ segir Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri.
Starfsmannafjöldi greiningarinnar var alls 109, 24 karlar og 85 konur. Greiningin var gerð út frá launum maímánaðar.