Lauf sortnaði fyrir norðan
Trjágróður virðist hafa farið hvað verst á Norðurlandi í vonskuveðri sem gekk yfir landið á dögunum. Það á þó eftir að koma betur í ljós.
Illviðri síðustu viku hafði heilmikil áhrif á trjágróður á Norðurlandi að sögn Laufeyjar Leifsdóttur, bónda á Stóru Gröf í Skagafirði og formanns Félags skógarbænda á Norðurlandi.
„Það má sjá vindslit á lauftrjám, öspin er kalin en mikill munur eftir klónum. Barr á lerki hefur gulnað þar sem var frost og sums staðar eru áberandi skemmdir. Haustið og veturinn hafa líka farið illa með gróður og það er mikið kal í víði og birkikjarri. Allt kemur þetta ofan í svæðisbundin áföll frá síðasta sumri en þá kól aspir víða,“ segir Laufey.
Ætla má að trjágróður hafi farið hvað verst á Norðurlandi og nokkurt tjón orðið, en Hjörtur Bergmann Jónsson, skógarræktandi í Ölfusi og formaður stjórnar SkógBÍ, segir það í raun ekki komið í ljós enn þá. „Það liggur ekki enn fyrir hvaða áhrif veðrið hefur á þessum verstu svæðum fyrir norðan og austan. Á Suðurlandi er þetta í ágætis standi, þannig lagað,“ segir hann. Kalt hafi verið og vindasamt og allt miklu seinna til en venjulega, en ekkert tjón í sjálfu sér. „Heilt yfir á Suður- og Vesturlandinu hefur þetta sloppið ágætlega en spurning hvernig er með Héraðið og Þingeyja- sýslur, Eyjafjörð, Skagafjörð og Norðurland vestra.
Ef trjágróður hefur verið kominn af stað og svo kemur frost og hríð þá er ekki von á góðu, sérstaklega fyrir lauftré. Ef nýja laufið sölnar, eða brumið, er ekki víst að það nái sér yfir sumarið. Það spáir hlýindum og þá gæti þetta allt komið betur í ljós,“ segir Hjörtur.