Lítill hluti kvótans verið nýttur
Við úthlutun á WTO- tollkvótum í sumar fengu fjögur innflutningsfyrirtæki samtals 345 þúsund kílóa kinda- eða geitakjötskvóta úthlutað.
Langstærstan hluta hans fékk Stjörnugrís, eða 281 þúsund kíló. Síðan hafa einungis 557 kíló verið flutt inn og Stjörnugrís ekkert enn þá.
Í aðsendri grein í blaðinu í dag skrifa þeir Trausti Hjálmarsson, formaður búgreinadeildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, og Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri Icelandic Lamb, um markaðsstöðu og -horfur fyrir íslenskt lambakjöt. Þar kemur fram að eina íslenska matvaran með upprunavottun sé íslenskt lambakjöt.
Ómerktur uppruni lambakjöts
Þeir vekja athygli á því að vegna þess hversu lítið hefur verið flutt inn á þessu ári megi búast við að innflutningur aukist fljótlega. Þeir segja að innflutningsfyrirtækin hafi hingað til ekki auglýst að um innflutt lambakjöt sé að ræða og benda neytendum á að spyrja ávallt um uppruna lambakjötsins sem þeir kaupa.
Geir Gunnar Geirsson, forstjóri Stjörnugríss, segir að enginn innflutningur hafi átt sér stað frá því að þeim var úthlutaður þessi kvóti.
Hann segir að innflutningurinn verði í litlu magni ef fyrirtækið ætli að nýta sér innflutningskvótann – en þá líklega frá Spáni eða Nýja- Sjálandi.
Takmarkaður áhugi sé á innflutningi á lambakjöti enn sem komið er.
Selt til veitingahúsa og í kjötvinnslur
Geir telur að erlenda kindakjötið sé ekkert mikið ódýrara en það íslenska, það sem verði mögulega flutt inn fari til veitingahúsa og í kjötvinnslur, rétt eins og aðrar kjötvörur sem fluttar eru inn. Úthlutunin síðasta sumar gildir fyrir tímabilið 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Tilboðum var tekið frá fjórum fyrirtækjum á meðalverðinu ein króna á kílóið.