Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.
Fréttir 12. júní 2015

Málflutningur andstæðinga innflutningsins veikburða

Höfundur: Vilmundur Hansen

Frumvarp sem heimilaði innflutning á erfðaefni í holdanautgripi var lagt fram á Alþingi í vor. Fyrsta umræða um frumvarpið hefur farið fram. Óvíst er hvort frumvarpið verði samþykkt eins og það er eða hvort gerðar verði breytingar á því þar sem það á eftir að fara í gegnum aðra og þriðju umræðu í þinginu.


Tvær hugmyndir eru uppi um innflutning á erfðaefni holdanautgripa til landsins, annars vegar innflutningur á fósturvísum og áframeldi á einangruðum bæjum eins og Stóru-Ármótum á Suðurlandi og hins vegar innflutningur á sæði til notkunar á völdum bæjum.
Stjórn Landssambands kúa­bænda hefur mælt fyrir heimild til innflutnings á sæði og segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri sambandsins, ekkert að óttast í sambandi við innflutninginn. Á móti hafa komið fram öndverð sjónarmið þeirra sem ýmist vilja engan innflutning eða í besta falli innflutning erfðavísa með áframeldi í einangrun.

Gagnrýni á veikum grunni

„Ég vona sannarlega að frumvarpið verði samþykkt sem allra fyrst,“ segir Baldur.
„Við Sigurður Loftsson, formaður LK, fórum á fund nefndarinnar sem fjallaði um málið og þar var okkur tekið vel og ekki annað að heyra en að þar væri mikill áhugi á málinu.“

Baldur segir eitt af því sem hann sjái að málflutningi þeirra sem gagnrýni frumvarpið og væntanlegan innflutning á erfðaefni nautgripa sé að hann byggi á veikum grunni. „Ég hef til dæmis hvergi séð efnislegar athugasemdir við áhættumatið sem Landssamband kúabænda lét gera í tengslum við innflutninginn og að mínu mati er það sterkasta gagnið í málinu.“

Sæði eða fósturvísar

„Landssamband kúabænda telur að innflutningur á sæði sé eina leiðin sem veitir kúabændum beinan aðgang að afkvæmaprófuðum gripum eða með öðrum orðum reyndum ræktunargripum. Áhættumatið sem við létum gera gengur út á það. Að okkar mati er þetta mjög mikilvægt atriði sem gagnrýnendur innflutningsins hafa skautað framhjá.

Hvað hugmyndinni um innflutning á fósturvísum varðar minnir mig að hún sé komin frá eiganda Stóru-Ármóta og standi mönnum til boða ef þeir vilja. Hugmyndin er ekki komin frá LK og meira að segja stjórn Bændasamtakanna klofnaði í afstöðu sinni í því hvort væri betra að flytja inn sæði eða fósturvísa og sendi inn hvort sitt álitið um frumvarpið.

Þegar flutt er inn sæði úr nautum kemur það úr tuddum sem eru hýstir í einangrunarstöð með miklum sóttvarnarkröfum. Ef aftur á móti á að flytja inn fósturvísa verður að sækja þá í kýr sem ekki er að finna á einangrunarstöðvum eins og naut.“

Ströng skilyrði fyrir notkun

„Verði innflutningurinn á sæði leyfður verður notkun á því eingöngu heimiluð á býlum sem uppfylla skilyrði sem verða sett í reglugerð í tengslum við innflutninginn. Að sjálfsögðu verða gerðar varúðarráðstafanir um innflutning þrátt fyrir að það komi ekki fram í frumvarpinu enda fjallar það ekki um þá hlið málsins.

Slíkt mundi aftur á móti koma fram í reglugerðinni sem yrði sett í tengslum við innflutninginn og þegar hafa verið gerðar tillögur um.

Það er því einfaldlega rangt að halda því fram að það séu engar kröfur gerðar til bænda sem koma til með að nýta sér innflutta sæðið.

Við teljum okkur hafa í höndunum bæði vönduð og ítarleg gögn sem segja að það sé óhætt að fara þá leið sem við leggjum til. Tillaga okkar um að flytja frekar inn sæði en fósturvísa er því ekki úr laus lofti gripin eins og margir virðast halda.

Áhættumatið sem LK lét gera er mun víðtækara en það sem var framkvæmt af Matvælastofnun. Mat LK tekur til um 50 sjúkdóma en mat Matvælastofnunar ekki nema til 16.“

Litið framhjá áhættumati LK

Baldur segir að LK sé opið fyrir umræðum um innflutninginn á fósturvísunum en að enn sem komið er hafi hann ekki heyrt nein haldbær rök sem ættu að koma í veg fyrir innflutning á sæði úr holdanautum frá Noregi.

„Það er til dæmis alltaf horft framhjá áhættumatinu sem við létum gera þegar innflutningurinn er gagnrýndur og ekki litið við því þrátt fyrir að það hafi verið opinbert í nokkra mánuði. Persónulega tel ég fulla ástæðu til að taka mið af áhættumatinu í umræðunni því þar er að finna vönduðustu og ítarlegustu gögnin sem til eru um málið.

Í stað þess að gagnrýnin snúist um það sem stendur í matinu eru rifjaðar upp sögur um innflutning á lifandi Karagúlfé á fjórða áratug síðustu aldar og eins og það hafi ekki orðið neinar framfarir síðan þá. Í mínum huga er það ekki málefnaleg umræða,“ segir Baldur.

Ólíkum málum ruglað saman

Baldur blæs á raddir sem segja að innflutningur á erfðaefni nautgripa gæti hrint af stað atburðarás sem ylli því að slakað yrði á reglum um innflutning á hráu kjöti og að tollverndin yrði þannig í uppnámi.

„Málflutningur af þessu tagi er algerlega fráleitur og tóm vitleysa að blanda þessu tvennu saman. Sama má segja um þá hugmynd að innflutningur á sæði úr holdagripum tengist innflutningi á nýju kyni mjólkurkúa. Slíkt er allt annað mál og tengist frumvarpinu um innflutninginn á sæði úr norskum holdanautum ekki á nokkurn hátt.

Innflutningur á hráu kjöti og nýju mjólkurkúakyni er miklu umdeildara mál en innflutningurinn á sæðinu innan raða LK og ekki verið samþykktar neina ályktanir um slíkt á sex aðalfundum í röð hjá landssambandinu.“

Baldur segir að langflestir meðlimir LK séu hlynntir hugmyndinni um innflutninginn á holdanautasæðinu. „Að sjálfsögðu eru ekki allir sammála enda erfitt að finna mál sem allir eru 100% sammála um. Aðalfundur LS hefur ályktað um málið á hverju einasta ári í sex ár og um 70 manns komið að þeim ályktunum og yfirgnæfandi meirihluti stutt hugmyndina.“

Tíminn að renna út

Baldur segir að verði frumvarpið samþykkt, sem hann vonar innilega, þá verði það að gerast fljótlega svo að bændur missi ekki af möguleikanum á að nota sæðið á þessu ári.

„Ef frumvarpið verður samþykkt er næsta skref að smíða reglugerð um framkvæmdina og þar eiga Matvælastofnun og héraðsdýralæknar að sjálfsögðu aðkomu.

Holdakýr eru yfirleitt látnar bera á vorin í apríl og fram í júní. Kálfarnir ganga undir sumarlangt og fram á haust. Kýrnar eru svo sæddar í júlí til september. Það er því enn tími til stefnu en hann er að verða ansi knappur eigi að fæðast hér á næsta vori kálfar af norsku holdanautakyni,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...