Mannekla og launatap
Á hverju ári hefur fjöldi farandverkamanna frá Austur-Evrópu flykkst til Evrópu til að vinna tímabundið við landbúnaðarstörf. Meðal þessara starfa er að tína epli og safna humal á sunnanverðum Bretlandseyjum.
Í framhaldi af úrsögn Breta úr Evrópusambandinu óttast bændur að skortur verði á vinnuafli um hábjargræðistímann og farandverkafólkið að það missi af tekjum sem það hefur talið vísar undanfarin ár og jafnvel áratugi.
Breskur eplabóndi í Kent sagði í samtali við The Guardian að erfitt væri að manna eplatínsluna með bresku vinnuafli vegna þess að um árstíðabundna vinnu væri að ræða og að margir Bretar teldu það fyrir neðan virðingu sína að tína epli og safna humal.
Samkvæmt opinberum tölum eru að meðaltali um 70.000 farandverkamenn að störfum í Bretlandi á hverju ári og þar af 12.000 sem koma til að tína epli og safna humal. Stærstur hluti þessa fólks kemur til Bretlandseyja frá Austur-Evrópu.