Matvælaverð er hlutfallslega lægra á Íslandi en hjá öllum hinum Norðurlandaþjóðunum
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Umræða um matvælaverð hefur verið allnokkur síðustu misseri. Viðfangsefnið nálgast málshefjendur úr ýmsum áttum og sýnist sitt hverjum eins og gengur. Tölur Eurostat hafa þó sýnt að samfellt frá 2007 hefur hlutfall útgjalda neytenda á Íslandi til matvælakaupa verið lægra en að meðaltali í 28 ríkjum Evrópusambandsins.
Erna Bjarnadóttir.
Bændasamtökin gáfu í janúar út skýrslu um þætti sem hafa áhrif á matvöruverð. Þar kom í ljós að afurðaverð til frumframleiðenda er oft ekki nema brot af endanlegu smásöluverði.
„Þeir eru fjölmargir, ekki aðeins afurðaverð til bænda heldur líka, laun starfsfólks í virðiskeðjunni, samkeppni á smásölumarkaði, nýting verslunarhúsnæðis, afgreiðslutími verslana og skattar og gjöld á matvæli,“ segir Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna.
Samanburður við önnur lönd athyglisverður
Erna segir áhugavert að bera matvælaverð á Íslandi saman við nágrannalöndin og verðlag innan ESB. Eurostat (hagstofa Evrópusambandsins) hefur yfir yfirgripsmiklum gagnagrunni að ráða í þessu skyni. Þar er hægt að gera samanburð á hlutfallslegu verðlagi á matvörum. Það felur í sér samanburð á verðlagi hvers lands miðað við meðaltals verðlag innan ESB. Ef hlutfallslegt verðlag er hærra en 100 er verðlag hærra en að meðaltali innan ESB og öfugt.
Einnig má lýsa þessu sem verðlagi mælt í evrum, með kaupmáttarjafngildingu. Eurostat ber saman verðlag með þessum hætti fyrir 32 lönd en aðeins 19 þeirra eru hluti af evrusvæðinu, auk Danmerkur en danska krónan er nátengd evru.
Samkvæmt nýjustu tölum Eurostat er Ísland í 8. sæti á þessum mælikvarða. Lægst er matvælaverð í löndum A-Evrópu mælt með þessari aðferð Eurostat.
„Þar, líkt og á Íslandi, er evran hins vegar ekki alls staðar orðin gjaldmiðill heldur enn notaðir gjaldmiðlar viðkomandi landa, ef frá eru talin Eystrasaltslöndin, Slóvakía og Slóvenía. Almennt má segja að eftir því sem laun eru hærri í viðkomandi landi, því hærra er verðlag, þar með talið á matvörum,“ segir Erna.
− Hve háu hlutfalli af útgjöldum sínum verja neytendur til matvælakaupa?
„Á það hefur oftsinnis verið bent að hæð á verðlagi segi ekki alla söguna, heldur skipti meira máli hve þungt útgjöld til matvælakaupa vegi í heildarútgjöldum heimilanna. Matur er jú ein helsta grunnþörfin sem þarf að uppfylla og því minna af ráðstöfunartekjum sem fara til þess, því meira er eftir til ráðstöfunar í annað.“
Bretland hagstæðast
Samkvæmt Eurostat verja Íslendingar 13,3% útgjalda sinna til kaupa á matvörum og eru í 10. sæti neðan frá á þeim mælikvarða. Hagstæðast að þessu leyti er að búa í Bretlandi en þar er enginn virðisaukaskattur á matvæli.
Í þeim löndum þar sem verðlag mælist hvað lægst eru útgjöld neytenda að jafnaði hlutfallslega há til matvælakaupenda. Í þeim hópi eru meðal annars Eystrasaltslöndin sem hafa tekið upp evru. Meðaltal ESB-landa er um 14% og evru-löndin koma lítið eitt lakar út.
Lægra hlutfall til matarkaupa á Íslandi öll árin frá hruni
− Hvernig hefur þróun útgjalda vegna matarkaupa verið undanfarin ár í samanburði við ESB-löndin?
„Hjá Eurostat er einnig hægt að skoða hvernig hlutfall útgjalda til kaupa á matvörum hefur verið að þróast undanfarinn áratug. Meðfylgjandi mynd sýnir samanburð á Íslandi annars vegar og ESB í heild hins vegar. Greinilegt er að áhrifa fjármálakreppunnar í heiminum gætir fyrr í ESB en á Íslandi, eða strax á árinu 2008. Eðlilega kemur hins vegar stökk til hækkunar á Íslandi árið 2009 og hefur síðan aftur farið jafnt og þétt lækkandi og er öll árin lægra en í ESB í heild. Á árinu 2016 má þó merkja hækkun á ný og þarfnast það nánari skoðunar. Því má bæta við að hlutfall útgjalda til kaupa á innlendum búvörum (mjólkurvörum, eggjum og kjötvörum) er um 5,4%,“ segir Erna.
Lækkun tolla tryggir ekki endilega lægra verð til neytenda
− Hvernig er verðlag á innfluttum matvörum án tolla?
„Nær allar aðrar matvörur (utan kartaflna og örfárra annarra undantekninga) eru fluttar inn án tolla og ættu því að vera sambærilegar í verði og gerist í nágrannalöndunum ef kenningar talsmanna afnáms tolla standast. Tölur Eurostat hafa hins vegar fram til þessa sýnt að brauð og kornvörur og ávextir og grænmeti eru hlutfallslega dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum. Þetta undirstrikar að verð til neytenda ræðst af fjölmörgum þáttum,“ segir Erna.
Hún bendir á að margoft hafi verið sýnt fram á að afurðaverð til bænda er aðeins lítill hluti af útsöluverði og hefur farið lækkandi sem hlutfall af því á undanförnum árum og áratugum. Úrvinnsla, eftirlitskostnaður, markaðs- og dreifingarkostnaður og smásöluálagning séu dæmi um þætti sem hafa á móti hækkað sem hlutfall af útsöluverði.
Hlutfall tekna sem fer í matarkaup er einn mælikvarði á lífskjör
„Einn mælikvarði á lífskjör er hversu stórt hlutfall útgjalda neytenda af heildarútgjöldum fer til kaupa á matvælum. Hér á landi er þetta hlutfall lítillega undir meðaltali ESB. Það hlýtur að verða keppikefli okkar að svo verði áfram og að þetta hlutfall lækki enn.
Það eru fjölmargir þættir sem hafa áhrif á matvælaverð til neytenda. Á sumum sviðum, eins og í heilbrigðiskröfum, hefur íslenskur landbúnaður dýrmæta sérstöðu sem standa þarf vörð um. Landbúnaðurinn mun á móti leitast við að hagræða og leggja sitt af mörkum til að byggja gjöfult samfélag,“ segir Erna Bjarnadóttir.