Merkilegt sjávarþorp með mikla sögu
Höfundur: HKr.
Þorpið Súðavík við Álftafjörð í Ísafjarðardjúpi hefur tekið miklum breytingum eftir snjóflóðið sem féll á þorpið snemma að morgni 16. janúar 1995. Flóðið féll á gömlu byggðina sem svo er nefnd, en eftir flóðið var ákveðið að reisa nýtt þorp utan snjóflóðahættusvæðis innan við Eyrardalsá.
Í Súðavík er ýmislegt áhugavert að skoða. Þar er mjög merkilegt Melrakkasetur sem tileinkað er íslenska refnum og er opið alla daga frá maí til september a milli klukkan 10.00 og 14.00. Þá er þar að finna skemmtilegan og fallegan garð, Raggagarð, sem gleður bæði börn sem fullorðna.
Allir velkomnir til Súðavíkur
Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, sagði í samtali við Bændablaðið að sumarið núna verði öðruvísi en venjulega með tilliti til ferðamennsku. Útlendingarnir sem hafi verið áberandi undanfarin ár sjáist vart að þessu sinni. Hann vonast þó til að Íslendingar nýti tækifærið í staðinn til að skoða landið sitt og heimsæki Súðavík. Þar séu allir velkomnir.
„Það er ágætis hljóð í fólki hér þó staðan sé mjög breytt. Ég held að nú sé tækifæri fyrir marga til að endurskipuleggja sig og endurskilgreina. Það hefur verið gengið að því sem gefnu að hér komi útlendingar í bílförmum, skipsförmum og flugvélaförmum, en ljóst að þeir koma ekki. Ég held því að nú sé tækifærið til að fara í markaðssókn. Það hefur verið þannig hér að skipakomur á Ísafjörð hafa skilað til okkar fjölda erlendra ferðamanna. Við erum þó fá hér og því engin gríðarlega stór fyrirtæki í þessum geira,“ segir Bragi.
Hann segir það trúlega rétt að ferðaþjónusta svona fjarri höfuðborgarsvæðinu verði ekki fyrir eins miklum neikvæðum áhrifum vegna COVID-19 og fyrirtæki í mesta þéttbýlinu á suðvesturhorninu. Ástæðan sé einkum sú að vetrarþjónusta er ekki sérlega ríkur þáttur í þjónustu við ferðamenn á afskekktari stöðum og skaðinn eftir lokun landsins undanfarna mánuði því óverulegur.
„Að sama skapi vegur hver ferðamaður sem hingað kemur þungt fyrir svo fámennt byggðarlag.“
Raggagarður hefur mikið aðdráttarafl
Raggagarður í Súðavík er með leiktækjum fyrir börn og fullorðna. Frumkvöðull að uppsetningu Raggagarðs er Vilborg Arnarsdóttir, eða Bogga eins og Súðvíkingar kalla hana. Hún var jafnframt fyrsti framkvæmdastjóri garðsins. Hana hafði lengi langað að búa til sumarleiksvæði til þess að auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir fjölskyldur og ferðamenn á norðanverðum Vestfjörðum, efla útiveru og hreyfingu og stuðla að ánægjulegri samveru foreldra og barna.
Bogga hófst handa við verkefnið eftir að sonur hennar, Ragnar Freyr Vestfjörð, lést í bílslysi í Súðavík árið 2001, aðeins 17 ára gamall. Garðurinn er til minningar um hann.
Í garðinum er svið ásamt áhorfendasvæði, ætlað fyrir fjölskyldusamkomur og listaviðburði, er á útivistarsvæðinu. Nokkur útigrill eru á leikjasvæðinu til afnota fyrir gesti. Sæti og borð eru fyrir yfir 100 manns í öllum garðinum.
Gestabók og sparibaukur eru við salernishúsið og eru gestir beðnir um að skrifa í bókina í hvert sinn sem garðurinn er heimsóttur. Enginn aðgangseyrir er í Raggagarð en frjáls framlög í baukinn eru vel þegin til að styrkja rekstur garðsins.
Salerni, grill og önnur aðstaða í garðinum eru opin frá 1. júní til 1. september, en gestum er þó velkomið að heimsækja garðinn á öðrum tímum líka. „Garðurinn er byggður upp með huga, höndum og hjarta heimamanna og annarra velunnara“, eins og segir í kynningu um garðinn á vefsíðunni ferðalag.is.