Mikið álag á bændum
Staðan er þung þar sem tún koma mikið kalin undan vetri. Ótíðin undanfarið hefur gert kúabændum torveldara um vik í vorverkum.
Slík staða getur skilað sér í lakari uppskeru að magni og gæðum, að sögn Herdísar Mögnu Gunnarsdóttur, nautgripabónda á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði og varaformanns BÍ. Hún segir að betur eigi eftir að koma í ljós hverjar afleiðingarnar verða en þetta muni hafa áhrif bæði á mjólkur- og nautakjötsframleiðsluna. „Staðan er verst á þeim svæðum þar sem tún komu mikið kalin undan vetri og ekki á bætandi fyrir þá bændur að komast ekki út í akrana fyrir bleytu og snjó til að geta hafið uppræktun,“ segir hún. Uppræktun sé bæði kostnaðarsöm og tímafrek svo mikið álag sé á bændum.
„Mjólkurkýrnar fara víða seinna út en vant er en það hefur lítil áhrif á þær þar sem þær una sér vel inni í nútímafjósum. Veðrið gerði holdabændum erfitt fyrir víða þar sem kýr voru farnar að bera úti en við eigum enn eftir að meta hversu mikið tjón hefur orðið,“ segir Herdís jafnframt.