Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sigurður Sigurðarson og Ólöf Erla Halldórs­dóttir við Renault-bifreið sem bílasalan Bílaland lánaði til verksins.
Sigurður Sigurðarson og Ólöf Erla Halldórs­dóttir við Renault-bifreið sem bílasalan Bílaland lánaði til verksins.
Fréttir 14. júlí 2020

Miltisbruni – Anthrax á Íslandi

Höfundur: SS/HKr.
Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Selfossi, og Ólöf Erla Halldórs­dóttir, kona hans, lögðu á dögunum upp í ferð um landið til að athuga merkin sem sett hafa verið niður þar sem liggja í jörð skepnur sem dáið hafa úr miltisbrandi. 
 
Sigurður mun setja saman ­skýrslu um málið sem afhent verður Matvælastofnun (MAST), sem tekur við eftirlitinu. Fær MAST þar ferskar upplýsingar um stöðu mála af öllu landinu, en merkingin, mynda­taka og hnitasetning byrjaði árið 2004. 
 
Nýjar upplýsingar hafa tafið verklok
 
„Í nokkur skipti hef ég talið mig hafa lokið verkefninu, en þá hafa komið upplýsingar um bæi og staði, sem hafa gleymst. Þá hef ég enn þurft að fara á stúfana og safna upplýsingum. Þetta hefur með öðru tafið verklokin. Eins gæti farið nú,“ sagði Sigurður við upphaf ferðar þeirra hjóna á Vestfirði í síðustu viku. 
Áformað er að afhenda sveitarstjórnum yfirlit yfir bæi á sínu svæði að lokinni skoðun og einnig þeim sem hafa merkin í landi sínu. Skýrslan er því í fjórum eintökum. Auk þess mun Matvælastofnun koma henni í kynningu, m.a. á netinu, fyrir skipulagsyfirvöld, lækna og lögreglu og almenning. 
 
„Við treystum þeim sem hafa slík merki í landi sínu að hjálpa til við að varðveita þau og verja gegn ágangi skepna og framkvæmdum manna. Við skorum á alla áhugasama menn að láta vita um staði þar sem smit gæti leynst og ekki eru á þessari skrá. Ábendingar hafa borist um fjölda bæja í viðbót, en þegar upplýsingarnar hafa verið óljósar eða ótrúverðugar, hafa þeir staðir verið settir í bið eða útilokaðir.
Merkin eru hvítur sívalur stólpi, 50 cm hár og 7 cm í þvermál á jarðföstum teini (kambstál). Notaðar eru plötur úr ryðfríu stáli, sem festar eru á stólpana með draghnoðum og sjálflýsandi límborðar á hvern stólpa. 
 
Sigurður hefur útbúið lista yfir miltisbrandsstaðina sem hann hefur merkt.
„Sá listi er ekki gallalaus, sjálfsagt vantar á listann ýmsa bæi og óvissa er um suma staðina. Einnig vantar upplýsingar um það of víða, hvar grafirnar eru nákvæmlega. Merkið á slíkum stöðum er þá áminning um að sýna varúð og hafa augun opin, ef raska þarf jörð á viðkomandi svæði.
 
Ég tek gjarnan við ábendingum og athugasemdum og mun koma þeim á framfæri eftir atvikum. Reglugerð mun gera mönnum skylt að fylgjast með merkjunum á sínu landi og láta Matvælastofnun vita, ef þau skaddast eða týnast.“
 
Um 160 grafir á 130 stöðum
 
„Grafirnar eru um allt land. Þær eru um 160 á nær því 130 stöðum. Mikilvægt er að þekkja og merkja grafirnar.
 
Sýkillinn sem veldur miltisbrandi lifir sem dvalargró nær endalaust niðri í jörðinni en virðist verða hættulítill í yfirborðinu í grennd við grafirnar eftir fáar vikur, líklega fyrir áhrif sólarljóss og veðrunar. Þess vegna er mikilvægt að vita hvar hætta er fyrir hendi og merkja, til þess að vara við jarðraski, sem gæti dregið smitefnið upp á yfirborðið.“ 
 
Síðast fannst miltisbrandur 2004
 
„Síðast fannst miltisbrandur hér á landi árið 2004 á Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Þá hafði sjórinn brotið sjávarkamb, þar sem grafinn hafði verið stórgripur sem drapst úr miltisbrandi 1874, eða 130 árum áður. 
 
Efni úr sjávarkambinum barst yfir beitiland 4 hrossa sem þar voru. Þrjú hrossanna drápust skyndilega úr miltisbrandi en það fjórða veiktist og var lógað. 
 
Fjörutíu árum fyrr, eða 1965, fannst miltisbruni á Þórustöðum í Ölfusi. Þá hafði verið raskað jörð á mógrafasvæði frá aldamótum 1900, eða 65–70 árum áður með  skurðgrefti og jarðvinnslu. Í grafirnar var fleygt skepnum sem dóu eða fargað var miltisbrunaveikum. 
 
Við jarðvinnsluna komu í ljós dýrabein sem dreifðust yfir hálfan hektara. Sex kýr drápust úr veikinni og tveir menn fengu miltisbrunasár á útlimi en læknuðust.“ 
 
Hættulegt mönnum og dýrum
 
„Smithætta er fyrir flestar dýra­tegundir með heitu blóði og fyrir fólk. Þrjú mismunandi form eru á miltisbruna. Innvortis blæð­ingar og drep er algengast hjá búfé. Lífshættulegar sýkingar í öndunar­færum koma fyrir hjá fólki sem andar að sér gróum sýklanna. En útbrot á húð, drepkýli, eru algengust hjá fólki. 
 
Að minnsta kosti 10 manns hafa látist af völdum miltisbruna hér á landi og margir tugir manna hafa veikst, sem tekist hefur að lækna. Erlendis dó fólk þúsundum saman úr miltisbrandi áður fyrr.
 
Skepnur sem dóu úr miltisbrandi voru grafnar djúpt og girt í kringum grafirnar. Ef jörðin er látin óhreyfð, á stöðum sem merktir hafa verið, þá er smithættan engin. 
Miltisbrunahræ eru ekki lengur grafin heldur brennd til ösku og/eða sótthreinsuð í formalíni. 
 
Hóf að merkja miltisbrunagrafir árið 2004 á eigin kostnað
 
„Ég fór að undirbúa merkingar á gröfunum árið 2004. Eftir að ég hætti störfum hjá yfirdýralækni um 2006 hefur þetta starf, þ.e. öflun upplýsinga, staðsetning, merking og skráning, að mestu verið sjálfboðavinna mín, en kostnaður, sem undirritaður hefur greitt úr eigin vasa vegna þessa verks er hár. Matvælastofnunin mun þó greiða útlagðan kostnað.“
 
Guðni Ágústson og Bílaland björguðu málum
 
„Varla er sanngjarnt að láta eftir­launin mín standa undir vinnu okkar Ólafar. Fyrir nokkrum árum var ég orðinn vondaufur um að geta lokið þessu verkefni, og orðinn sorgmæddur vegna daufra undirtekta og æpandi þagnar stjórnvalda við beiðni minni um aðstoð. Þá gekkst Guðni Ágústson, fyrrum landbúnaðarráðherra, fyrir því að útvega bíl hjá Bílalandi, svo að fara mætti á milli mitisbrunastaðanna til að merkja og safna upplýsingum. 
 
Enn hafa snillingar eins og Sigurður Ófeigsson hjá Bílalandi lagt okkur Ólöfu til bíl fyrir þessa lokaskoðun. Það gerir kleift að ljúka þessu verki með sóma að ég vona.  Guðni Ágústsson er sá sem mestan skilning hefur á þessu verkefni mínu og hve nauðsynlegt það er. Heiður og þökk sé honum fyrir það. 
 
Ýmsir fóru að styrkja þetta verkefni þegar þeir fréttu af því og fjölmargir hafa lýst ánægju sinni. Hjartans þökk. Það hjálpar okkur Ólöfu til að ljúka þessu verki. Baldur Baldursson, BB-skilti ehf., hefur gengið fram af drengskap og krafti við að koma þessu verkefni af stað og fengið ýmsa góða menn til að styðja það,“ segir Sigurður Sigurðarson. 
 
Miltisbrunagrafir á Íslandi 2020
– Eftirtaldir bæir eru á lista Sigurðar Sigurðarsonar yfir miltisbrunasýkingar 
eða rökstuddan grun um þær – Númer á merktum gröfum eru innan sviga
 
ANGÁRVALLASÝSLA:
(A1 - A9)
Yztabæli Eyjafjöllum (2 staðir), Meiritunga (2 staðir), Kaldakinn (2 Staðir), (Lýtingsstaðir - á skoðun)
 
VESTMANNAEYJAR:
Einn maður lést (A10)
 
ÁRNESSÝSLA
Austan Ölfusár: (A11 - A25)
Hamrar Grímsnesi (frá 16 og 17. öld) 
Úthlíð, Hjálmsstaðir (2 staðir) 
Ketilvellir 
Eyvindartunga
Lækur 
S-Sýrlækur 
Krókur 
Eyrarbakki (2 staðir við Móskurð) 
Tunga/Hólar, V-Íragerði
 
ÁRNESSÝSLA
Vestan Ölfusár: (A30 -- A36)
Hagavík 
Þórustaðir (3 staðir) 
Stóri-Háls 
Gljúfurárholt
Arnarbæli
Hvammur 
Þorkelsgerði
 
GULLBRINGUSÝSLA:
(A42 - A49)
Suðurkot 
Sjónarhóll
Ás
Ófriðarstaðir (Jófríðarstaðir) 
Urriðakot (2 staðir)
Hraunsholt (2 staðir, grafir tæmdar og smiti eytt með formalíni)
 
REYKJAVÍK OG KJÓS:
(A50 - A63)
Reykjavík (? staðir)
Breiðholt
Sunnuhvoll (Klambratún) 
Hlemmur
Miðdalur (2 staðir)
Hraðastaðir
Sólvellir
 
BORGARFJÖRÐUR:
(A101a - A105)
Skáneyjarkot
Skáney (a.m.k.5 staðir)
Laugavellir 
Giljar, Grímsstaðir 
Árdalur
 
MÝRASÝSLA: (A111 – A121)
Síðumúli 
Fróðastaðir 
Hallkelsstaðir (svæði) 
Galtarholt
 
DALASÝSLA: (A141 – A160)
Háafell 
Hamraendar 
Skriðukot
Hólar 
Stóri-Galtardalur 
Kjallaksstaðir
Harastaðir
Skarðsstöð 
Ólafsdalur
 
A-BARÐ, V-BARÐ, V-ÍS, N-ÍS, STR.sýsl: (A170 – A194)
Gillastaðir
Barmar
Reykhólar
Saurbær
Minni-Hattardalur 
Birnustaðir
Lágidalur
Grund á Drangsnesi
Gautshamar Drangsnesi
Smiðjuhús í Húsadal
Brunngil í Bitru
 
HÚNAVATNSSÝSLUR:
(201 – 220)
Ánastaðir (2 staðir)
Höskuldsstaðir
Þórormstunga
Grímstunguheiði
Guðrúnarstaðir
 
SKAGAFJÖRÐUR:
(A221 – 222 - AB242)
Skarðsá
Lækur (Viðvíkurhreppi)
Hólakot A-Fljót
 
EYJAFJÖRÐUR: (A231 – A236)
Háls
Gata Árskógsströnd
Krossanes (2 staðir)
Ytragil, Hólsgerði
Svertingsstaðir (2 staðir)
 
S-ÞING: (A241 – A243)
Grænavatn (2 staðir)
Grundartóft
Kálfaströnd
N-ÞING, MÚLASÝSLUR: (A301 – A322)
Jaðar, Engihlíð
Svínabakkar, Hauksstaðir
Hof, Hrappsstaðir
Heiðarsel
Sleðbrjótssel
Hofteigur
 
HÉRAÐ: (A331 – A350)
Hafrafell
Staffell
Ekkjufell
Kross
Ormarsstaðir
Refsmýri
Hlíðasel
Skeggjastaðir
Meðalnes
Skriðuklaustur
 
VELLIR: (A351 – A355)
Víkingsstaðir
Jaðar
Ketilsstaðir
Keldhólar
Mjóanes
 
AUSTFIRÐIR: (A361 – 365)
Brekka
Norðfjörður (Júdasarbali)
Hólmaháls
Hólmar
Slétta
 
SUÐURFIRÐIR:
(A370 – A377)
Skálavík
Berunes
Dalir (3 staðir)
Hólagerði
Berufjörður
Teigarhorn
Búlandsnes
Djúpivogur (á Tanga)
 
A-SKAFTAFELLSSÝSLA austan Fljóta: (A391 – A393)
Bær í Lóni
Brekkubær í Nesjum
Bjarnanes (ómerkt)
 
A-SKAFTAFELLSSÝSLA vestan Fljóta: (A401 – A404)
Stóraból
Einholt (2 staðir)
Fell

 

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu
Fréttir 29. nóvember 2024

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Laxabraut 31 ...