Mjölrætur í vanda
Fyrir skömmu kom út nýjasta útgáfa af IUCN Red List sem er listi yfir dýr og plöntur í útrýmingarhættu. Í listanum að þessu sinni er að finna lista yfir 41 tegund planta sem tilheyra ættkvíslinni Dioscorea sem stundum eru kallaðar mjölrætur á íslensku. Þekktasta tegundin innan ættkvíslarinnar er líklega yam-rótin.
Plöntur af ættkvíslinni Dioscorea eru ríflega 600 og vaxa í hitabeltinu. Þrátt fyrir að vera breytilegar að útliti eiga allar plöntur ættkvíslarinnar það sameiginlegt að mynda stóra og mjölmikla forðarót eða rótarstöngul.
Innan ættkvíslarinnar eru nokkrar tegundir sem eru dagleg fæða hundruð milljóna manna og kallast yam og nýttar vegna rótarinnar. Rætur ólíkra tegunda eru frá því að vera svipaðar stórum kartöflum að stærð upp í að vera einn og hálfur metri að lengd og allt að 70 kíló að þyngd.
Tegundirnar í útrýmingarhættu sem um ræðir er eingöngu að finna á eyjunni Madagaskar og í Suður-Afríku.
Ofnýting villtra mjölróta
Þrátt fyrir að yam sé þriðja mest ræktaða nytjaplanta í heimi er mikið um að aðrar tegundir mjölróta séu grafnar upp í náttúrunni og nú er svo komið að fjöldi villtra tegunda er ofnýttur.
Á eyjunni Madagaskar finnast 30 tegundir mjölróta villtar og eru margar þeirra á lista Kew-grasagarðsins yfir plöntur í útrýmingarhættu.
Í Suður-Afríku láta menn sér yfirleitt nægja að borða ræktaðar mjölrætur og minna um að villtar tegundir séu nýttar til matar. Suður-afrísku tegundirnar eru þar á móti margar hverjar mjög sjaldgæfar og sérstakar hvað þróun varðar og margar tegundirnar einstakar að lögun. Mjölrætur í Suður-Afríku eiga til, ólíkt öðrum ættingjum sínum, að mynda myndarlega stöngulrót sem vex ofanjarðar.
Talið er að villtar mjölrótartegundir í Suður-Afríku séu í engu minni og jafnvel meiri útrýmingarhættu en á Madagaskar vegna breytinga á landnotkun.
Efni í getnaðarvarnarpillunni
Auk þess að hafa verð nýttar sem fæða voru hormónar sem notaðir voru í getnaðarvarnarpilluna og aðrar lyfjagerðir upphaflega unnir úr mjölrót.
Útrýming tegundar er alltaf sorgleg og eins og orðið gefur til kynna endanleg því eftir að búið er að útrýma tegund er hún útdauð og of seint að grípa til verndunaraðgerða.