Ný aðveitustöð á Hnappavöllum tekin í notkun
Ný aðveitustöð RARIK var tekin í notkun á Hnappavöllum í Öræfasveit fyrir skömmu en hún mun auka afkastagetu og afhendingaröryggi rafmagns á svæðinu til muna. Rafmagnsálag í Suðursveit og Öræfum hefur aukist verulega síðustu ár samfara fjölgun ferðamanna og með tilkomu hótels sem opnað hefur verið á Hnappavöllum. Forsenda þess að hægt var að reisa nýja aðveitustöð á svæðinu var að Landsnet legði til nýjan afhendingarstað raforku frá byggðalínu á Hnappavöllum, en áður var raforka fyrir þetta svæði afhent frá Hólum í Hornafirði. Frá Hólum er um 130 kílómetra 19 kV háspennulögn að Skaftafelli sem annað hefur raforku á svæðinu vestan Hornafjarðarfljóts, það er Mýrum, Suðursveit og Öræfum. Þar af eru um 120 kílómetrar í háspennujarðstreng. Þegar undirbúningur að hótelinu á Hnappavöllum hófst árið 2015 var strax ljóst að 19 kV kerfið myndi ekki anna þeirri aukningu sem því fylgdi án sérstakra aðgerða. Því óskaði RARIK eftir að Landsnet legði til nýjan afhendingarstað frá byggðalínunni í Öræfum og á meðan beðið hefur verið eftir varanlegri lausn hefur RARIK gripið til margvíslegra bráðabirgðalausna til að anna álaginu, m.a. með því að hafa þar varaaflstöð til að framleiða inn á kerfið á mesta álagstíma.
Trygg staðsetning og byggt yfir allan búnað
Nýr afhendingarstaður Landsnets og aðveitustöð RARIK sem nú hafa verið tekin í notkun eru undir Kvíáröldu austan við bæinn Hnappavelli, sem telst trygg staðsetning með tilliti til hugsanlegra jökulflóða. Byggt er yfir allan búnað RARIK og Landsnets á Hnappavöllum. Þetta kemur fram á vefsíðu RARIK og þar er einnig haft eftir Tryggva Þór Haraldssyni forstjóra að nú verði hægt að mæta verulega auknu álagi í Suðursveit og Öræfum, en raforkuflutningur inn á það svæði sé nú bæði frá Hólum og Hnappavöllum. „Það er því vel séð fyrir orkuþörf svæðisins til langrar framtíðar um leið og dregið er úr líkum á rafmagnstruflunum,“ segir Tryggvi Þór.