Nýtt hestamannafélag í Skagafirði
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Stofnfundur fyrir Skagfirðing, sem er nýtt hestamannafélag í Skagafirði, var haldinn á dögunum. Formaður er Guðmundur Sveinsson, sem segir við Feyki að um mikið framfaraskref sé að ræða fyrir hestamenn í firðinum.
Kosið var í stjórn félagsins en auk Guðmundar skipa hana Ása Hreggviðsdóttir, Skapti Steinbjörnsson, Haraldur Þór Jóhannsson og Pétur Örn Sveinsson. Varamenn eru Elvar Einarsson og Ragnar Pálsson. Stjórn á eftir að skipta með sér verkum.
Félögin þrjú, Léttfeti, Stígandi og Svaði, sem nú sameinast í einu öflugu félagi halda sína aðalfundi á næstu dögum og verða þá formlega lögð niður. Eftir þann gjörning verður efnt til annars fundar hjá Skagfirðingi og línur lagðar.
Á fundinum voru gerðar nýjar samþykktir, rætt um nýtt lógó félagsins og var stjórninni falið að vinna það mál áfram. Einnig var rætt um framtíðina og hvað menn sjá fyrir sér.