Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hólasandslína. Mynd var tekin í Eyja­firði.
Hólasandslína. Mynd var tekin í Eyja­firði.
Fréttir 13. janúar 2021

Öll verkefni miða að því að auka öryggi við afhendingu raforku

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Við höfum aldrei í sögu fyrirtækisins staðið í jafn miklum framkvæmdum. Þetta er algjört metár  og þegar upp verður staðið við áramót má gera ráð fyrir að við höfum framkvæmt fyrir tæplega 12 milljarða króna. Allar okkar framkvæmdir miða að því að auka afhendingaröryggi raforku og við höfum náð heilmörgum áföngum á þeirri leið nú í ár. Staðan er mun betri í þeim efnum en hún var fyrir ári síðan,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. 

Um þessar mundir er eitt ár liðið frá því hamfaraveðrið gekk yfir landið, það olli gríðarlegu tjóni og víða varð rafmagnslaust um lengri eða skemmri tíma, einkum um norðanvert landið. Mikil ísing sem lagðist á raflínur varð þess m.a. valdandi. Framkvæmdir Landsnets á árinu hafa að hluta snúist um að koma raflínum í jörð.   

Allt gekk upp þrátt fyrir faraldurinn

Guðmundur Ingi segir að vel hafi unnist í ár og margir góðir áfangar náðst og það þrátt fyrir að fyrirtækið hafi líkt og aðrir verið að glíma við takmarkanir og hertar sóttvarnarreglur vegna heimsfaraldurs. 

„Faraldurinn hefur auðvitað sett sitt strik í okkar reikning eins og hjá öðrum, við höfum þurft að takmarka samskipti milli vinnuflokka, koma upp sóttvarnarhólfum og þá hefur verið mun flóknara að fá sérfræðinga til okkar frá útlöndum. Sama gildir um aðföng, það tók mun lengri tíma en áður að afla þeirra. Þrátt fyrir þessar hindranir gekk allt vel á árinu og við erum virkilega ánægð með hvernig til tókst. Ég þakka það einkum okkar góða starfsfólki, verktökum um land allt og ráðgjöfum sem stóðu sig með mikilli prýði,“ segir hann. 

Stöndum betur að vígi núna en fyrir ári

Landsnet hafði sett saman metnaðarfulla áætlun um uppbyggingu á flutningskerfi raforku með það að markmiði að tryggja og jafna aðgang íbúa landsbyggðar að rafmagni óháð búsetu. Um var að ræða langtímaáætlun til næstu 10 til 15 ára og var þegar farið að vinna að henni þegar óveðrið fræga skall á fyrir réttu ári. Það afhjúpaði ýmsa veikleika í kerfinu og fjöldi manns bjó við langvarandi rafmagnsleysi meðan á því stóð og eftir að það gekk yfir. Annað óveður gekk yfir landið í upphafi árs og hafði það mikil áhrif á Suðurland og teygði sig til Vestmannaeyja.

Kórónuveiran kom til sögunnar fremur snemma á árinu og hafði í för með sér samdrátt í efnahagslífi, atvinnuleysi og tekjutap hjá fjölda landsmanna.

„Í kjölfarið hvatti ríkisstjórnin til margvíslegra verkefna, veiti aukið fé til framkvæmda til að  vega upp á móti samdrættinum og halda uppi atvinnustigi. Við fengum vissulega þessa hvatningu og fórum í það að forgangsraða verkefnum upp á nýtt, færa sum þeirra framar m.a. til að færa mál sem úrskeiðis fóru í óveðrinu til betri vegar,“ segir Guðmundur. 

„Við lærðum margt af þessu óveðri og stöndum nú ári síðar mun betur að vígi komi annað eins áhlaup.“

Landsnet hefur keypt fimm færanlegar varaaflsstöðvar, samtals 6 MW og nemur kostnaður um 450 milljónum króna. Fyrirtækið hefur hug á að kaupa fimm til viðbótar til að tryggja það að eigi aldrei á að líða langur tími án rafmagns hvar sem er á landinu.

Fimm færanlegar varaaflsstöðvar

Landsnet hefur keypt fimm færanlegar varaaflsstöðvar, samtals 6 MW, og nemur kostnaður um 450 milljónum króna. Nú nýlega var prófunum á tengingu þeirra við kerfið á Snæfellsnesi lokið og segir Guðmundur að vel hafi tekist til. Verið er að undirbúa tengingar fyrir þær á völdum stöðum á landinu. Guðmundur segir að skamma stund taki að færa stöðvarnar til þar sem þeirra verður hugsanlega þörf hverju sinni. 

„Við höfum hug á að kaupa aðrar fimm stöðvar til að tryggja það að aldrei líði langur tími án rafmagns hvar sem er á landinu. Þetta er mjög góð fjárfesting og mun án efa koma sér vel einhvern tíma,“ segir Guðmundur.

Framkvæmdum við yfirbyggingu tengivirkis við Hrútatungu í Hrútafirði var ein af þeim sem sett var framar í forgangsröðun í kjölfarið á óveðrinu í fyrra.

Jarðstrengur frá Varmahlíð að Sauðárkróki leysir 46 ára loftlínu af hólmi

Framkvæmdum við yfirbyggingu tengivirkis við Hrútatungu í Hrútafirði var ein af þeim framkvæmdum sem sett var framar í forgangsröðun í kjölfarið á óveðrinu. Guðmundur segir að hún hafi farið illa út úr óveðrinu og þar orðið umtalsvert tjón. Nú sé búið að yfirfara tengivirkið fyrir veturinn en fram undan séu framkvæmdir við að byggja nýtt yfirbyggt tengivirki. 

Landsnet hefur einnig staðið að umfangsmiklum verkefnum í Skagafirði og að þeim loknum er búið að hringtengja allan Skagafjörð með tvöfaldri línu á leiðinni frá Varmahlíð að Sauðárkróki. Flutningskerfið hafi því styrkst mjög á því svæði, en m.a. var lagður 66KV jarðstrengur, Sauðárkrókslína 2 frá Varmahlíð að nýju tengivirki á Sauðárkróki. Áður var eina tenging Sauðárkróks við flutningskerfið um 40 ára gamla loftlínu frá Varmahlíð. Jarðstrengur mun að sögn Guðmundar auka orkuöryggi og meira en tvöfalda flutningsgetuna á svæðinu. Jarðstrengurinn er um 24 kílómetra langur. Ný tengivirki hafa verið reist á Sauðárkróki og í Varmahlíð er einnig nýtt yfirbyggt rofareitavirki  á lóð tengivirkisins þar og settur upp nýr spennir. 

Þá stendur til að hefjast innan tíðar handa við umfangsmikið verkefni á svipuðum nótum í Dalvíkurbyggð sem hefur það markmið að auka öryggi þar þegar kemur að raforku og segir Guðmundur að undirbúningur vegna þess verkefnis standi yfir og verði hafist handa á fyrri hluta árs 2023. Verkefnið snýr að lagningu 66 kV jarðstrengs frá Rangárvöllum á Akureyri til Dalvíkur, rúmlega 40 km leið. Þannig verður til staðar tvöföld tenging sem þýðir að afhendingaröryggi í Dalvík og bæjum utar á Tröllaskaga verður mun meira heldur en það er í dag.

Einnig nefnir hann að til standi að styrkja línuna til Kópaskers en hún fór illa vegna mikillar ísingar í desember í fyrra. 

Landsnet hefur staðið fyrir umfangsmiklum framkvæmdum í ár, fyrir tæplega 12 milljarða króna, sem öll stuðla að auknu öryggi við afhendingu á raforku. Eitt af stóru verkunum er lagning Kröflulínu 3, sem er 122 kílómetra löng lína frá tengivirki við Kröflustöð að tengivirki við Fljótsdalsstöð.

Umfangsmiklar framkvæmdir norðan heiða

Unnið er við Kröflulínu 3 og stefnt að því að framkvæmdum við hana ljúki snemma á næsta ári. Kröflulína 3 er umfangsmikið verkefni, 122 kílómetra löng lína frá tengivirki við Kröflustöð að tengivirki við Fljótsdalsstöð. Markmið með nýrri Kröflulínu er að bæta raforkuflutningskerfið, auka stöðugleika og gæði orkuafhendingar. Annað stórt verkefni norðan heiða er Hólasandslína 3 sem liggur frá Akureyri og að Hólasandi, en markmið með lagningu hennar er sömuleiðis bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika í raforkukerfi á Norður- og Austurlandi. 

„Þegar framkvæmdum við þessar línur er lokið verður umhverfi raforkumála t.d. í Eyjafirði gjörbreytt og betra en nú er. Það sama á við um Þingeyjarsýslur og allt Austurland. Á sama tíma og þessi tvö stóru verkefni eru í gangi fyrir norðan er einnig unnið að undirbúningi þess að hefja lagningu þriðju línunnar, Blöndulínu 3. Þessar línur allar eru mikilvægar fyrir flutningskerfi landsins í heild, þær eru mikilvægur hlekkur í því að styrkja tengsl milli sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorni landsins.“

Vaxandi álag á kerfið á Suðurlandi

Guðmundur nefnir einnig að álag á flutningskerfið á Suðurlandi hafi vaxið hratt á umliðnum árum og fyrirtækið sé að styrkja það með tengingum á milli kerfa. Óveður sem gerði í upphafi árs leiddi í ljós veikleika í kerfinu á sunnanverðu landinu og hefur verið unnið við að bæta þar úr. 

Nýtt yfirbyggt tengivirki er komið í framkvæmd við Lækjartún austan Þjórsár og tengist það Búrfellslínu 2 sem og báðum hlutum 66kV kerfisins í landshlutanum. Þá verður Selfosslína 2 lögð í jörð á 16 kílómetra kafla á milli Lækjartúns og Hellu. 

„Þetta hefur í för með sér aukið öryggi í landshlutanum sem nær svo líka út til Vestmannaeyja,“ segir Guðmundur.

Aukið öryggi á Austurlandi og á Vestfjörðum

Stór áfangi hefur að auki náðst á Austurlandi en verið er að ljúka við að hringtengja þar nokkra kaupstaði, Egilsstaði, Eskifjörð, Neskaupstað og Reyðarfjörð. Segir Guðmundur það hafa verið mikið átak og hafi í för með sér miklar framfarir frá því sem áður var þegar kemur að afhendingaröryggi á svæðinu og möguleikum á aukinni notkun á svæðinu.

Mikil áhersla er áfram á að bæta raforkuöryggið á Vestfjörðum, þar sem undirbúningur að annarri tengingu við sunnanverða Vestfirði er í gangi og stefnt er að því að hefja framkvæmdir 2022. Jafnframt er stefnt að því að byggja nýtt yfirbyggt tengivirki í Breiðadal og hefja framkvæmdir við það á næsta ári og þá verði tengvirki Landsnets á norðanverðum Vestfjörðum öll yfirbyggð.

„Það hefur verið mikið um að vera allt árið hjá okkur og við getum ekki annað en verið ánægð með þann árangur sem náðst hefur, öll þau verkefni sem unnið hefur verið að og stuðla að því að öryggi við afhendingu raforku hefur aukist til mikilla muna.“ 

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...