Opið hús á Hvanneyrargötu
Það sveif góður andi yfir vötnum síðastliðinn fimmtudag, þann 22. janúar, þegar fyrirtæki og stofnanir í húsinu að Hvanneyrargötu 3 á Hvanneyri buðu í opið hús.
Húsið, sem tekið var í notkun 2003, hýsir Búnaðarsamtök Vesturlands, Framleiðnisjóð landbúnaðarins, Héraðssetur landgræðslunnar, Matvælastofnun, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Skorradalshrepp og Vesturlandsskóga. Milli 20–25 starfsmenn hafa aðstöðu á Hvanneyrargötu 3 þar sem einnig er töluvert um laus rými til leigu. Það gæti því verið vænlegur kostur fyrir aðila sem er að leita að aðstöðu fyrir starfsemi af ýmsu tagi að skoða hvað er í boði í húsinu. Hvanneyrargata 3 er í eigu Borgarlands og Búnaðarsamtaka Vesturlands. Mjög góð aðstaða er í húsinu, það er á þremur hæðum og lyfta milli hæða. Í húsinu er fundarsalur með góðum búnaði og kaffistofa. Staðsetning er miðsvæðis á Vesturlandi og stutt í ýmsa þjónustu. Hér má sjá nokkrar svipmyndir frá opnu húsi á Hvanneyri.