Óskað eftir lengri fresti vegna sameiningar Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH Afurða
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Sameiningarviðræður Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða hafa gengið ágætlega, en einhverjar tafir hafa þó orðið enda málið ekki einfalt viðureignar,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska.
Hann segir að áhugasamir fjárfestar hafi óskað eftir lengri tímafrestum til að skila inn óskuldbindandi tilboðum í hlut í sameinuðu fyrirtæki.
„Tilboð hafa nú borist en það á eftir að fara betur yfir þau og eins að ræða við tilboðsgjafa,“ segir Ágúst Torfi.
Boðað hafði verið til hluthafafundar í Búsæld, félagi sem á Norðlenska, nú á laugardag 30. mars í Mývatnssveit, en vegna tafa sem orðið hafa hefur honum verið frestað. Ágúst Torfi segir að nýtt fundarboð verði sent út þegar ljóst sé hvenær þeirri vinnu sem þarf að ljúka fyrir hluthafafund verði lokið.