Prótein ostanasl besta próteinvaran
Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Responsible Foods, sem framleiðir osta og skyrnasl undir vörumerkinu Næra, sigraði nýverið í einum keppnisflokki í alþjóðlegri nýsköpunarkeppni mjólkurvara sem heitir World Dairy Innovation Awards og keppti til úrslita í tveimur öðrum flokkum.
Fyrirtækið keppti við fjölda alþjóðlegra fyrirtækja sem framleiða afurðir úr mjólkurvörum. Að sögn dr. Holly T. Kristinsson, framkvæmdastjóra og stofnanda Responsible Food, eru verðlaunin mikil viðurkenning fyrir íslenskar mjólkurafurðir og fyrirtækið.
Næra prótein ostanasl sigraði
Fyrirtækið fékk fyrstu verðlaun fyrir bestu próteinvöruna úr mjólkurafurðum (e. Best Dairy Protein Product). Varan sem sigraði heitir Næra prótein ostanasl og inniheldur yfir 70 prósent prótein. Hún er bæði fitulítil og kolvetnasnauð og með stökka áferð sem minnir á kartöfluflögur. Að sögn Holly hefur varan fengið frábærar viðtökur neytenda bæði hérlendis og erlendis og er alveg sérstök.
Skyrnaslið sem lenti í öðru sæti.
Fyrirtækið lenti í öðru sæti í flokki bestu naslvara úr mjólkurafurðum fyrir skyrnaslið sem það framleiðir. Holly segir að Næra skyrnaslið sé fyrsta naslið sem hefur verið þróað úr skyri sem opnar á nýja markaði og neytendur fyrir íslenskt skyr. Naslið er framleitt úr fersku íslensku skyri, er próteinríkt og með afar langt geymsluþol og er fáanlegt í mismunandi bragðtegundum. Þá lenti fyrirtækið einnig í úrslitum í flokki bestu nýju fyrirtækja og vörumerkja.
Responsible Foods var stofnað árið 2019 og setti sína fyrstu vinnslu í gang haustið 2020 á Granda í Reykjavík þar sem það þróar og framleiðir osta og skyrnasl úr íslensku hráefni. Fyrirtækið er um þessar myndir að setja upp aðra vinnslu á Fáskrúðsfirði þar sem eingöngu verður þróað og framleitt nýtt nasl úr mismunandi sjávarfangi. Næra vörurnar eru framleiddar með einstakri þurrkunartækni og fást meðal annars í Bónus, Nettó og Hagkaup um allt land.