Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fréttir 20. desember 2016
Ræktun á morgunfrú í bígerð
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Purity Herbs er að færa út kvíarnar í sinni starfsemi. Eigendur þess, hjónin Ásta Sýrusdóttir og Jón Bernharð Þorsteinsson, festu í fyrra kaup á jörðinni Búlandi í Hörgársveit, sem er um 100 hektarar að stærð og hyggjast nýta hana í þágu fyrirtækisins, bæði með því að rækta þar jurtir sem til framleiðslunnar þarf og einnig til ferðaþjónustu.
Miklar endurbætur hafa verið gerðar á íbúðarhúsi sem þar var fyrir og var í niðurníðslu þegar þau keyptu.
Purity Herbs hefur verið starfandi á Akureyri í ríflega tvo áratugi, var stofnað árið 1994 af Ástu og André Raes, en hún rekur fyrirtækið nú með manni sínum, Jóni Bernharði. Hjá fyrirtækinu eru framleiddar 44 tegundir af mismunandi snyrtivörum, m.a. kremum af ýmsu tagi sem eiga það sameiginglegt að í þau eru notuð íslenskar villtar jurtir. Kremin hafa reynst þeim vel sem glíma við húðvandamál, en þau mýkja einnig og næra húðina. Purity Herbs hefur á umliðnum áratugum skapað sér nafn og er þekkt hér á landi fyrir framleiðslu sína á hreinum og kraftmiklum snyrtivörum, en undanfarin ár hefur vaxandi gróska verið í útflutningi á vörum fyrirtækisins. Félagið er með sína aðstöðu í rúmgóðu húsnæði við Freyjunes, en bætir nú jörðinni Búland við.
Fá að fylgjast með jurtatínslu
Ásta segir að til standi að gera jörðina Búland að því sem þau kalla: „The Home of Purity Herbs“. Þar verður í framtíðinni tekið á móti dreifingaraðilum félagsins sem og öðrum gestum.
„Við keyptum þessa jörð á síðastliðnu ári og höfum unnið að endurbótum á íbúðarhúsinu sem þar var. Þeim er nú að mestu lokið og í framhaldinu er ætlunin að útvíkka starfsemi fyrirtækisins, en hugmyndin er að nýta jörðina bæði til ræktunar jurta og einnig til ferðaþjónustu.
Við hlökkum til að taka á móti þeim sem dreifa okkar vörum víða um heim og leyfa þeim að upplifa ósvikna íslenska náttúru þar sem jurtirnar vaxa í villtu umhverfi. Við tínum nú þegar mikið af jurtum á Búlandsjörðinni og þær eru notaðar í okkar framleiðslu. Við teljum að það verði áhugavert fyrir okkar útlendu viðskiptavini að fá tækifæri til að sjá með eigin augum hvernig jurtatínslan fer fram og í hvaða umhverfi,“ segir Ásta.
Eigin ræktun í stað innflutnings
Jörðin Búland hentar fyrirtækinu og fjölskyldunni sem að því stendur einkar vel, en mikill áhugi er innan hennar fyrir hestamennsku. Jón er bóndasonur og búfræðingur og veit ekkert skemmtilegra en að sýsla í sveitinni og það kemur sér auðvitað sérlega vel í þessum rekstri.
„Okkar markmið er að nýta þessa fínu jörð betur og því ætlum við strax næsta sumar að prófa okkur áfram með að rækta þar jurtir sem við notum í okkar framleiðslu,“ segir Ásta.
Ætlunin er að hefja ræktun á Morgunfrú (Calendula officinalis), jurt sem raunar vex ekki villt í náttúrunni en er notuð í miklum mæli í vörum fyrirtækisins. Hún segir að fram til þessa hafi fyrirtækið flutt inn lífrænt ræktaða morgunfrú frá Evrópu.
Morgunfrú eitt af undrum náttúrunnar
Olían sem unnin er úr Morgunfrú er afar áhrifarík og hentar vel fyrir þurra húð, en hún er einnig þekkt fyrir að hafa ýmis önnur góð áhrif, hrindir bakteríum frá, hamlar sveppum og hefur einnig sérlega græðandi eiginleika.
„Rannsóknir hafa sýnt fram á að krem sem innihalda Morgunfrúarolíu stuðli að auknum raka í húðinni, en það er mikilvægur þáttur í baráttu gegn ótímabærri öldrun húðarinnar. Morgunfrúin er því klárlega eitt af undrum náttúrunnar og þess vert að nýta sér hana,“ segir Ásta.
Undirbúningur vegna ræktunar á Morgunfrú á Búlandsjörðinni er þegar hafinn en ræktun hefst næsta vor.
„Í framhaldinu munum við hefja ræktun á enn fleiri jurtum, það kemur sér vel ef við sækjum um lífræna vottun á fyrirtækinu. Það má kannski segja að við séum að hluta til að róa á önnur mið en við höfum áður verið á með þessari viðbót við okkar starfsemi,“ segir Ásta.
Kraftaverk gerir kraftaverk
Kraftaverk (Viking Balm) er eitt þeirra krema sem framleidd eru hjá Purity Herbs og það sem selst hvað best.
„Þetta smyrsl var í upphafi þróað hér í fyrirtækinu fyrir íslenska hesta á erlendri grund. Þeir þurfa á stundum að glíma við ýmsa erfiða húðsjúkdóma eins og sólarexem, mikinn kláða og skallabletti auk þess sem sár á hestum er oft býsna þrálát og erfið viðureignar. Smyrslið reyndist það vel að undrun sætti og var það í framhaldinu einnig þróað og reynt á okkar mannlegu mein af svipuðum toga.
Árangurinn lét ekki á sér standa, smyrslið hefur þegar sannað sig, hefur gert þeim sem þjást af exemi gott, eins er reynslan góð þegar kemur að húðkláða, brunablöðrum, fótasveppum, frunsum, bólum, munnangri og erfiðum sárum, þannig að notagildið er margvíslegt,“ segir Ásta.