Sala á íslensku kjöti jókst lítillega árið 2019 þrátt fyrir verulega fækkun ferðamanna
Heildarsala á kjöti frá bændum á Íslandi jókst um 0,6% á árinu 2019, en alls seldust nærri 29.000 tonn á árinu. Þetta gerist þrátt fyrir afar litla fjölgun landsmanna, eða um 0,015%, sem er 57 manns og 13,8% fækkun ferðamanna.
Samkvæmt tölum frá starfsfólki í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, sem áður tilheyrði Búnaðarstofu, var um að ræða 2% aukna sölu á íslensku alifuglakjöti. Þá var um 0,9% aukning í sölu á nautakjöti og veruleg aukning í sölu hrossakjöts, eða um 23,1%.
Örlítill samdráttur var í sölu á sauðfjárafurðum, eða um 0,1%, og um 2,9% samdráttur var í sölu á svínakjöti.
Ætla mætti að sala á íslenskum kjötvörum gæti verið talsvert meiri ef litið er á sívaxandi innflutning á kjöti. Fróðlegt verður að fylgjast með kjötinnflutningi á nýbyrjuðu ári í ljósi heimilda í lögum til að flytja inn ferskar og ófrystar kjötvörur.
Á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 22,4% samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um innflutning frá desember 2018 til nóvember 2019. Í heild voru flutt inn tæp 4.400 tonn af kjöti sem samsvarar hátt í allri innanlandsframleiðslu á nautakjöti.
Um 7,3% samdráttur í framleiðslu á sauðfjárafurðum
Samkvæmt tölum frá afurðastöðvum var heildarframleiðsla á kjöti á árinu 2019 samtals tæp 31.753 tonn. Þar var mest framleitt af sauðfjárafurðum, eða rúmlega 9.719 tonn, sem er reyndar 7,3% samdráttur frá 2018. Þá kom alifuglakjöt, en af því voru framleidd um 9.589 tonn sem er aukning upp á 1,1% á milli ára. Svínakjöt var í þriðja sæti með um 6.534 tonn, en þar varð samdráttur í framleiðslu upp á 3,9%. Í fjórða sæti var framleiðsla á nautgripakjöti sem nam um 4.826 tonnum sem er aukning upp á 1,1%. Hrossakjötsframleiðslan var svo í fimmta sæti með um 1.085 tonn, en þar var 15,6% aukning í framleiðslu.
Alifuglakjötið er með mesta markaðshlutdeild
Hlutdeild kjöttegunda á markaðnum er óbreytt milli ára. Þar trónir salan á alifuglakjöti á toppnum með tæp 9.797 tonn og 33,8% markaðshlutdeild. Í öðru sæti voru sauðfjárafurðir með tæp 7.100 tonn og 24,5% markaðshlutdeild, en sala á þeim afurðum miðast við sölutölur frá afurðastöðvum. Í þriðja sæti með 22,5% markaðshlutdeild var svínakjöt, en af því voru seld um 6.530 tonn. Þá voru seld um 4.818 tonn af nautgripakjöti sem er með 16,6% markaðshlutdeild. Hrossakjötið er með 2,5% markaðshlutdeild og sölu upp á rúm 735 tonn.
Um 30% samdráttur í útflutningi kindakjöts
Þegar rýnt er nánar í sölutölur og birgðastöðu á sauðfjárafurðum kemur í ljós að útflutningur hefur dregist saman um 30% frá fyrra ári og var 2.658 tonn. Þá hafa birgðir verið að lækka umtalsvert, eða um 13% 2018 og um 7,2% á árinu 2019. Um 88,4% af kindakjötinu á markaðnum var dilkakjöt, en ærkjöt var 10,6%. Þá var kjöt af veturgömlu 0,4% og kjöt af fullorðnum hrútum var 0,7%.
Enginn útflutningur hefur verið á nautakjöti, svínakjöti og alifuglakjöti. Hins vegar hefur í gegnum árin verið einhver útflutningur á hrossakjöti og þá einkum til Japans. Á síðasta ári voru flutt út um 321 tonn af hrossakjöti, sem var 14,1% samdráttur frá árinu 2018.
Framboð af folaldakjöti hefur aukist um nær 30%
Á síðasta ári nam heildarsalan á hrossakjöti um 735 tonnum. Þar af voru 427,2 tonn af folaldakjöti sem er 29,6% aukning milli ára. Ástæðuna fyrir auknu framboði af folaldakjöti má að öllum líkindum rekja til aukinnar ræktunar á blóðmerum, en blóð er tekið úr fylfullum merum og selt til lyfjaiðnaðarins.
Auk folaldakjöts voru seld tæp 302 tonn af fullorðnum hrossum sem er 17,1% aukning frá 2018. Hins vegar voru einungis seld tæp 6,3 tonn af trippakjöti, sem var 38,8% samdráttur frá fyrra ári.
Folaldakjötið er með mesta markaðshlutdeild í þessum geira, eða 58,1%. Þá kemur hrossakjöt með 41% hlutdeild og trippakjöt með 0,9% hlutdeild.