Sameining skógræktarstarfs ríkisins í athugun
Umhverfis og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, hefur skipað starfshóp til að skoða sameiningu skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun.
Um er að ræða Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt, sem eru Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Norðurlandsskógar, Héraðs- og Austurlandsskógar og Suðurlandsskógar, auk umsjónar Hekluskógaverkefnisins.
Markmið vinnunnar er m.a. að samræma stjórnsýslu skógræktarmála og gera hana skilvirkari, auka faglega getu og yfirsýn og að efla búsetu á landsbyggðinni, m.a. með því að styrkja starfsstöðvar í héraði.
Er starfshópnum ætlað að greina hver samlegð sameiningar skógræktarstarfs ríkisins yrði og skila í lok ágúst greinargerð um hugsanlegan ávinning og áskoranir. Hópnum er ætlað að hafa náið samráð við Landssamtök skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands. Í starfshópnum sitja:
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, formaður,
Vilhjálmur Árnason, alþingismaður,
Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
Björn Helgi Barkarson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
Jón Loftsson, skógræktarstjóri frá Skógrækt ríkisins og
Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga, fulltrúi landshlutaverkefna í skógrækt.
Með hópnum starfar Guðrún Ragnarsdóttir ráðgjafi auk ritara.