Samvinna ungra bænda
Stjórnir ungbændahreyfinga á öllum Norðurlöndunum eiga í stöðugum samskiptum til þess að fylgjast með hvað er að gerast í nágrannalöndunum og læra af hvert öðru þegar kemur að málefnum ungra bænda.
Henrik Nordtun Gjertsen, formaður Samtaka ungra bænda í Noregi (NBU), veitir Nordic Young Farmers (NYFA) forystu. Hann segir ungliðahreyfingarnar á Norðurlöndunum nokkuð ólíkar þó svo að vandamálin séu sambærileg. Hann nefnir sem dæmi að í sumum löndum eru samtök ungra bænda deild innan hinna eiginlegu bændasamtaka, á meðan í Noregi eru NBU sjálfstæð samtök, þó svo að þau séu með skrifstofu í sömu byggingu og fulltrúi frá þeim sé í stjórn Norges Bondelag.
NBU eru regnhlífarsamtök fyrir minni félög ungs fólks í sveitum og dreifðari byggðum í Noregi og því ekki afmörkuð við bændur. Meðlimir NBU eru í kringum 7.000 og að auki við hagsmunagæslu byggir starfið á minni viðburðum sem svæðisfélögin skipuleggja og stærri hátíðum sem félagsmenn alls staðar að af landinu sækja.
Henrik kemur frá eplabýli í vesturhluta Noregs og hefur hann lengi verið virkur í félagsmálum bænda. Hann fer með forystu NYFA samhliða því sem norsku bændasamtökin eru kyndilberar Nordens Bondeorganisationers Centralråd (NBC), samstarfsvettvangi bændasamtaka á Norðurlöndunum. Norðurlöndin skipta formennskunni í NBC og NYFA á milli sín þar sem hvert land fer með formennsku í
báðum samtökum í tvö ár.