Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttir 5. apríl 2019
Höfundur: smh
Ársfundur Bændasamtaka Íslands var haldinn föstudaginn 15. mars á Hótel Örk í Hveragerði. Fyrir hádegi voru hefðbundin aðalfundarstörf ársfundarins, en ráðstefnuhald eftir hádegi. Um kvöldið var svo bændahátíð. Fyrir kaffi var fjallað um sérstöðu íslensks landbúnaðar og þær ógnir sem steðja að honum.
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands, setti ráðstefnuna, sem haldin var undir yfirskriftinni Hver er sérstaða íslensks landbúnaðar? Í setningarræðunni gerði Guðrún frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra meðal annars að umræðuefni, en það heimilar innflutning á hráu og ófrystu kjöti, hráum eggjum, ógerilsneyddri mjólk og mjólkurafurðum. Sagði hún afar mikilvægt að Ísland varðveiti sérstöðu sína varðandi eigin matvælaframleiðslu og nýti sóknarfærin sem þessi staða gefi til að bæta hag bænda.
Guðrún sagði að bændur telji að sér stafi ógn af innflutningi eins og frumvarp ráðherra gerir ráð fyrir og engin skynsamleg rök mæli með því að fórna þeirri frábæru stöðu sem Ísland byggi við í dag, hvað varðar hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða. Hún sagði að sjónarmiðin sem virðast ráða för snúi að viðskiptahagsmunum og viðskiptafrelsi. Umræðan undanfarna daga sýni að almenningi standi ekki á sama um íslenskan landbúnað. Nýleg skoðanakönnun sýni til að mynda að 58 prósent aðspurðra vilja halda áfram í það fyrirkomulag sem verið hefur með innflutning á hráu kjöti.
Katrín Jakobsdóttir telur að matvælalöggjöf Evrópusambandsins hafi ekki tekið nauðsynlegum breytingum. Mynd / smh
Matvælalöggjöf ESB ekki tekið nauðsynlegum breytingum
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnugesti eftir setningarræðu Guðrúnar. Hún ræddi svolítið um nýja matvælastefnu sem er í burðarliðnum, loftslagsmálin og vandamál tengd matvælasóun og vék svo talinu aðeins að innflutningsfrumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sagði hún að óhjákvæmilegt hafi verið að breyta lögum hér á landi í samræmi við dóm EFTA-dómstólsins, um það meðal annars að óheimilt væri að setja skilyrði um að innflutt hrátt kjöt væri fryst. Það væri þó hennar skoðun að matvælalöggjöf Evrópusambandsins hefði ekki tekið nauðsynlegum breytingum. Katrín sagði að löggjöfin grundvallaðist fyrst og fremst á viðskiptahagsmunum, meðal annars þess að hægt væri að flytja vörur og þjónustu frjálst yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hún hefði hins vegar ekki tekið nauðsynlegum breytingum; að hún taki tillit til dýraheilbrigðis, sýklalyfjaónæmis, matvælaöryggis og fæðuöryggis.
Íslensk stjórnvöld hafi komið þessum sjónarmiðum á framfæri við embættismenn Evrópusambandsins; að óásættanlegt væri að ekki sé tekið tillit til þessara þátta gagnvart Íslandi.
Viðbragð íslenskra stjórnvalda við dómnum væri meðal annars að setja í gang aðgerðaráætlun um sýklalyfjaónæmi, auk þess sem varnir verði reistar gagnvart kampýlóbakter og salmonellu.
Karl G. Kristinsson ræddi um þær ógnir sem felast í auknum innflutningi á landbúnaðarvörum gagnvart íslenskum landbúnaði og lýðheilsu á Íslandi.Mynd / Hkr.
Einstök staða íslensks landbúnaðar
Það var vel við hæfi að Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Landspítalann, fylgdi í kjölfar forsætisráðherra með sitt erindi þar sem hann ræddi um einstaka stöðu íslensks landbúnaðar hvað varðar smitsjúkdóma og sýklalyfjaónæmi. Karl sagði að sérstaða Íslands fælist í landfræðilegri stöðu og þeirri staðreynd að íslenskir bústofnar hafi nánast verið einangraðir í nær þúsund ár. Því finnist mun færri smitsjúkdómar í íslensku búfé en annars staðar. Þessi góða staða geri hins vegar stofnana viðkvæma fyrir smiti erlendis frá.
Afar lág smittíðni súnusjúkdóma hér
Kostir hinnar góðu stöðu séu hins vegar þeir að færri innlagnir fólks eru á sjúkrahús vegna svokallaðra súnusjúkdóma, sem smitast náttúrulega á milli manna og dýra, auk þess sem hér sé lágt hlutfall sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum og mönnum. Margir súnusjúkdómanna fyrirfinnist einfaldlega ekki hér á landi en nýgengi smita, þeirra fáu slíkra sjúkdóma sem hér finnast (kampýlóbakter og salmonella til dæmis), sé lágt miðað við annars staðar í Evrópu. Nýjasta skýrsla Evrópusambandsins um stöðu mála – sem er frá 2017 – sýni þetta. Frystiskylda á innflutta hráa kjúklinga með kampýlóbaktersmit sem komið var á í maí 2000 hafi haft mikið um það að segja að svo lágt nýgengi þessara smita sé hér á landi – og raunar sé tíðnin lægst hér á landi í Evrópu. Hið sama gildi um salmonellusmit.
Karl ræddi einnig um aðsteðjandi hættur frá öðrum dýrasjúkdómum sem breiðast út um Evrópu; afrísk svínapest, gin- og klaufaveiki og mæðuveiki geti borist með ýmsum leiðum eins og til dæmis landbúnaðaráhöldum, -tækjum og -verkfærum, ekki síður en með matvælum.
Sýklalyfjaónæmi mesta ógnin við lýðheilsu
Næst talaði Karl um sýklalyfjaónæmi. Hann sagði að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefði gefið það út í maí 2015 að sýklalyfjaónæmi væri mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum. Vandamálið snúist ekki einungis um að ekki verði til sýklalyf til að vinna á alvarlegum sýkingum heldur líka til forvarna; til dæmis í skurðaðgerðum og í krabbameinsmeðferðum.
Orsökin fyrir þessari þróun segir Karl óhóflega sýklalyfjanotkun; bæði til lækninga á sýkingum í fólki en einnig í landbúnaði þar sem búfé er gefið sýklalyf með fóðri; sem forvörn og til vaxtarörvunar.
Sýklalyfjaónæmi geti borist með matvælum til Íslands frá löndum þar sem umhverfi sé mengað og mikil sýklalyfjanotkun er í landbúnaði. Skortur sé á rannsóknum á þessum málum en líklegt sé að áhættan sé mest tengd innflutningi á salati og öðru fersku grænmeti, kjúklingum og öðrum alifuglum og svínakjöti. Aukinn innflutningur á landbúnaðarvörum muni auka líkur á því að nær alónæmar bakteríur nái hér fótfestu og að nýir búfjársjúkdómar berist til landsins.
Karl sagði að lokum að vekja þyrfti bændur, dýraeigendur og allan almenning til umhugsunar um hvort og hvernig við vildum varðveita sérstöðu okkar.
Eiríkur Már Guðleifsson, viðskiptastjóri á auglýsingastofunni Hvíta húsinu, fjallaði um hvernig talað væri um lýðheilsu og matvælaframleiðslu í samfélaginu. Mynd / HKr.
Útskýra þarf hugtök og upplýsa um rétt
Eiríkur Már Guðleifsson, viðskiptastjóri á auglýsingastofunni Hvíta húsinu, var næstur á mælendaskrá ráðstefnunnar. Yfirskrift hans erindis var Hvernig tölum við um lýðheilsu og matvælaframleiðslu? Hann sagði að Bændasamtökin og samstarfsaðilar hafi leitað eftir samstarfi við Hvíta húsið um hvernig kynna mætti almenningi á fræðandi hátt, möguleg áhrif af frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem felur meðal annars í sér afnám frystiskyldu á hráu kjöti sem flutt er til landsins.
Eiríkur sagði þetta vera flókin mál og það skipti máli hvernig þau sé sett fram til að fólk einfaldlega skilji þau. Útskýra þurfi hugtök og heiti umræðunnar auk þess sem upplýsa þurfi neytendur um rétt þeirra til upplýsinga um merkingar búvara, framleiðslu þeirra og uppruna. Gefa þurfi neytendum valdið.
Verkefnið snúist þó ekki síst um að tala um sérstöðu Íslands og hvernig við höfum skapað okkur þá stöðu.
Eiríkur sagði að við skoðun komi í ljós að 67 prósent neytenda vilji vita um allt sem sé í matnum þeirra. Þá athugi 84 prósent neytenda hvaðan vörur eru upprunnar, annaðhvort alltaf eða oftast og 68 prósent neytenda fannst uppruni vara skipta mjög eða nokkuð miklu máli þegar ákvörðun er tekin um kaup á henni. Af þessu megi sjá að neytendur hugsi um þessi mál nú þegar og því sé mikilvægt að umræðan sé fræðandi og talað sé um stöðuna eins og hún er í raun og veru. Nýleg könnun hafi leitt í ljós að 57 prósent landsmanna vilji viðhalda frystiskyldunni, en einungis 18 prósent aflétta henni. Eiríkur benti á að með því að taka þessa afstöðu kynni fólk að vera um leið að taka afstöðu um önnur skyld mál; frystiskyldan kynni þannig að tákna matvælaöryggi, vera tákn um stífar reglur um innflutning matvæla og að setja eigi lýðheilsu og matvælaöryggi ofar viðskiptahagsmunum.
Mikilvægt væri að ná til þess fólks sem hafi annaðhvort ekki myndað sér skoðun um málið eða fólks sem ekki hefur kynnt sér málið sérstaklega vel.
Sjá frekari umfjallanir um ráðstefnuna á blaðsíðu 28 í 6. tölublaði Bændablaðsins.
7 myndir:
Fréttir 13. janúar 2025
Breytingin nær tvöföld losun landbúnaðarins
Skráð losun gróðurhúsalofttegunda frá votlendi lækkar um 1,3 milljónir tonna CO...
Fréttir 13. janúar 2025
Bætur enn ógreiddar vegna kuldakastsins
Starfshópur ráðuneytisstjóra forsætis, fjármála og matvælaráðuneyta fer yfir ...
Fréttir 10. janúar 2025
Hrútarnir frá Ytri-Skógum vinsælastir
Góð þátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember, litlu minni en árið 2023, sem...
Fréttir 10. janúar 2025
Vörslusviptu fé slátrað og kúabændur sviptir leyfi
Matvælastofnun hefur lagt stjórnvaldsákvarðanir á umráðamenn dýra undanfarna tvo...
Fréttir 9. janúar 2025
Minnkun í sölu dráttarvéla milli ára
Á vef Samgöngustofu má sjá að 127 nýjar dísilknúnar dráttarvélar voru nýskráðar ...
Fréttir 9. janúar 2025
Kostir og gallar við erlent kúakyn
Á mánudaginn var haldinn fjarfundur um kosti og galla þess að flytja inn erlent ...
Fréttir 9. janúar 2025
Ekki til setunnar boðið að hrinda verkefnum í framkvæmd
Nýr ráðherra landbúnaðarmála er Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar í...
Fréttir 9. janúar 2025
Svínabændur fá frest til aðlögunar
Svínabændum hefur verið gefinn lengri frestur til aðlögunar að tilteknum skilyrð...
10. janúar 2025
„Byrjaði náttúrlega á að kaupa traktor“
10. janúar 2025
Vörslusviptu fé slátrað og kúabændur sviptir leyfi
13. janúar 2025
Bætur enn ógreiddar vegna kuldakastsins
10. janúar 2025
Hrútarnir frá Ytri-Skógum vinsælastir
9. janúar 2025