Seyðfirskt atvinnulíf þarf nýja vaxtarsprota
Seyðfirðingar hafa komið á fót samráðshóp sem ætlað er að greina valkosti varðandi framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á staðnum.
Í kjölfar ákvörðunar stjórnar Síldarvinnslunnar um að hætta bolfiskvinnslu á Seyðisfirði þótti rétt að huga að nýjum vinklum til að renna stoðum undir atvinnulíf staðarins. Hefur samráðshópurinn nú auglýst eftir hugmyndum um atvinnuskapandi starfsemi til framtíðar á Seyðisfirði og var frestur til að skila inn hugmyndum til 22. nóvember.
Að sögn Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra Múlaþings, er gert ráð fyrir að samráðshópurinn skili af sér um mánaðamótin febrúar/ mars 2024. „Einhver viðbrögð hafa borist,“ segir Björn og segist jafnframt eiga von á að megnið komi inn síðustu dagana áður en frestur rennur út. „Við erum opin fyrir öllu,“ segir hann.
Fjöldi íbúa á Seyðisfirði er nú 693. 383 þeirra eru á aldrinum 17–59 ára, 135 eru 67 ára og eldri, 77 eru 60–66 ára og 98 á aldursbilinu 0–16 ára.