Skorar á yfirvöld að bregðast við óheftri útbreiðslu á villimink
Landbúnaðarráð Dalvíkurbyggðar ályktaði á dögunum um það ófremdarástand sem uppi er vegna óheftrar útbreiðslu á mink. Er villi-minkur orðinn mikill skaðvaldur í fuglavarpi og víða farið að sjá verulega á fuglalífi, ekki síst í friðuðu landi. Í ályktuninni segir:
„Til umræðu minka- og refaveiðar í Dalvíkurbyggð 2020. Landbúnaðaráð Dalvíkurbyggðar leggur til að sótt verði um aukið fjármagn til Umhverfisstofnunar vegna eyðingar minks í sveitarfélaginu sem nú er farinn að gera allt of mikið vart við sig eftir að átaki nokkurra sveitarfélaga lauk sem miðaðist við að útrýma villimink, þessu átaki lauk of snemma með þeim afleiðingum að minkurinn er farinn að vaða upp á nýjan leik með tilheyrandi eyðileggingu á lífríki sveitarfélagsins.“
Útrýming villiminks stór umhverfismál
„Landbúnaðarráð telur skipulagða útrýmingu villiminks vera eitt af stærri umhverfismálum margra sveitarfélaga, þess vegna þurfi ríkisvaldið að bregðast við með stórauknu fjármagni í málaflokkinn. Ráðið felur sviðsstjóra að senda inn umsókn til Umhverfisstofnunar.“
Alvarleg áhrif á fuglalíf
Jón Þórarinsson á Hnjúki í Skíðadal, formaður Landbúnaðarráðs, segir ástandið víða orðið mjög dapurlegt. Minkurinn drepi mó- og vaðfugla í stórum stíl og því sé það mjög aðkallandi fuglaverndarmál að halda villta minkastofninum í skefjum.
Á vef Náttúruverndarstofnunar Íslands segir að minkur hafi átt þátt í að útrýma keldusvíninu hér á landi.
Þá sé minkur skilgreindur sem ágeng tegund á Íslandi og í fleiri löndum þar sem hann er talinn hafa valdið usla í vistkerfum. Minkur hefur t.d. valdið miklum skaða þar sem hann hefur komist í lundabyggð eins og greint var frá í Skessuhorni fyrir nokkrum árum. Þá drap minkur lunda í tugatali í Kjarrarnesi á Mýrum og hirti egg.
Aðskotadýr í íslenskri náttúru
Jón segir að minkur sé líka mikill skaðvaldur í lax- og silungsveiðiám. Hann sé aðskotadýr í íslenskri náttúru sem eigi sér enga náttúrulega óvini hér á landi, frekar en refurinn.
Minkur með lax.