Spjallað við bændur á bbl.is
Stuttir viðtalsþættir undir heitinu „Spjallað við bændur“ eru að hefja göngu sína á vefsíðu Bændablaðsins, bbl.is. Í þáttunum er tekið hús á bændum og rætt við þá um búskapinn, hvað er efst á baugi á búinu, tæknilausnir, bústofninn og ræktunina, húsakost, vinnuaðferðir og fleira. Í fyrsta þættinum er farið í heimsókn í Miðdal í Kjós og spjallað við Guðmund H. Davíðsson bónda.
Þættirnir eru gerðir af Þorsteini Roy Jóhannssyni og Herði Þórhallssyni. Saman reka þeir framleiðslufyrirtækið Beit sem m.a. hefur framleitt vefefni fyrir fotbolti.net og fleiri vefmiðla. Einkennislag þáttarins er gamall polki, sá sami og notaður var um árabil hjá Ríkisútvarpinu í þáttunum „Spjallað við bændur“ á Rás 1. Þeir sem komnir eru til vits og ára muna sjálfsagt laglínuna sem er býsna grípandi. Flutningur polkans er í höndum hljómsveitarinnar Rússíbana.
Stefnt er að því að birta tvo þætti í mánuði á bbl.is en þeim verður að auki dreift á Facebook-síðu Bændablaðsins. Auglýsendum býðst að kaupa auglýsingar í upphafi og við lok hvers þáttar.
Sjá fyrsta þátt Spjallað við bændur.