Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sina keypti Nóa ungan og óreyndan. „Síðan þá hef ég kennt honum allt sem ég kann og hann hefur kennt mér rosalega mikið,“ segir Sina stolt af sínum hesti.
Sina keypti Nóa ungan og óreyndan. „Síðan þá hef ég kennt honum allt sem ég kann og hann hefur kennt mér rosalega mikið,“ segir Sina stolt af sínum hesti.
Mynd / ghp
Fréttir 4. ágúst 2018

Staðráðna stúlkan sem fór alla leið

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Vaskleg framganga þeirra Sinu Scholz og Nóa frá Saurbæ á Landsmóti hestamanna vakti nokkra eftirtekt. Þau eru einu keppendur mótsins sem mættu til leiks í tölti og A-flokki gæðinga, þar sem þau enduðu í 6. sæti flokksins eftir glæsilegar sýningar sem einkenndust að næmu samspili manns og hests.

Sina Scholz frá Þýskalandi er útskrifaður reiðkennari fráHáskólanum á Hólum. Hún kom til Íslands eftir stúdentspróf því hún vildi fá að vinna með íslenskum hestum og kynnast landinu. Nokkurra mánaða dvöl hefur nú umbreyst í ellefu ára búsetu. Hún býr nú og starfar við tamningar á Miðsitju í Skagafirði.

Frá sumardvöl að háskólanámi 

„Ég var hestasjúk sem barn en ég hafði engin tengsl við þá, engin í fjölskyldunni hafði áhuga á þeim. Ég var hins vegar svo heppin að eini reiðskólinn nálægt heimabænum mínum var eingöngu með íslenska hesta. Ég byrjaði því strax, 6 ára, að fara á bak íslenskum hestum, móður minni til mikils léttis, því þeir eru svo litlir miðað við mörg önnur hestakyn,“ segir hún hlæjandi. Sina segist hafa stundað reiðskólann stíft en fyrsta hestinn fékk hún svo 14 ára gömul. Hún var þá þegar staðráðin að koma til Íslands til að fá meiri reynslu af reiðmennsku.

„Ég kom með vinkonu minni hingað og ætlaði að vera í nokkra mánuði. Við vorum á yndislegum stað, Kirkjubæ á Rangárvöllum, og Eva Dyröy og Guðmundur Björgvinsson voru ánægð með hvernig við nálguðumst og þjálfuðum hestana. Þau hvöttu mig síðan til að sækja um á Hólum. Mér fannst ótrúlega spennandi að geta menntað mig í hestamennsku og var þarna strax orðin ástfangin af hugmyndinni um að geta unnið við hesta.“

Kenna hvort öðru

Sina sótti því um Háskólann á Hólum, fékk inngöngu og stóð sig með miklum sóma í náminu, hlaut m.a. reiðmennskuverðlaun FT og Morgunblaðsskeifuna sem veitt er fyrir besta samanlagðan árangur í reiðmennsku.

Eftir að Sina útskrifaðist sem reiðkennari árið 2013 hóf hún störf hjá Þórarni Eymundssyni. Þar varð Nói á vegi hennar.

„Þórarinn ræktaði Nóa. Ég kynntist honum strax í frumtamningu og þjálfaði hann þegar ég vann hjá honum. Mér fannst hann alltaf mjög efnilegur. Hann var sýndur 5 vetra í kynbótadómi og fékk þá strax 1. verðlaun. Ég keypti hann svo þegar hann var á sjötta vetur, ungan og óreyndan. Síðan þá hef ég kennt honum allt sem ég kann og hann hefur kennt mér rosalega mikið,“ segir Sina stolt.

Nói er 9 vetra gamall, undan heiðursverðlaunastóðhestinum Vilmundi frá Feti og fyrstu verðlaunahryssunni Naomi frá Saurbæ, en Nói er fyrsta afkvæmi hennar. Nói hlaut 8,61 í aðaleinkunn þegar Sina sýndi hann fyrir kynbótadómi í fyrra. Hann fékk þá 8,41 fyrir sköpulag og 8,75 fyrir kosti, þar á meðal einkunnina 9 fyrir tölt, skeið og vilja og geðslag. „Kynbótadómurinn var stærsta afrek okkar á síðasta ári en síðan þá hefur hann bara verið að toppa sig,“ segir Sina.

Hún lýsir Nóa sem geðgóðum og meðfærilegum hesti. „Hann er mjög jafn alhliðahestur, allar gangtegundir eru ofboðslega góðar. Hann er rosalega ljúfur og það er gaman að vinna með honum. Hann vill allt fyrir mann gera. Svo er hann mjög prúður og fallegur.“

Það fór ekki framhjá áhorfendum að milli Sinu og Nóa ríkir mikið og gott samband. „Við erum orðin svo gott teymi, þetta er svo mikil samvinna. Hann reynir að gera allt fyrir mig og ég reyni að trufla hann sem minnst. Ég er svo heppin að eiga svona fjölhæfan hest.“

Nói og Sina urðu í 6. sæti í firnasterkri keppni A-flokks gæðinga. Mynd / Patty van der Kaaij

Óvæntur árangur

Það má segja að Nói og Sina hafi komist bakdyramegin inn í A-flokk gæðinga á Landsmóti, því þau voru skráð til leiks sem varakeppendur fyrir hestamannafélagið Skagfirðing. Í firnasterkri forkeppni voru þau í 22. sæti og héldu því áfram keppni. Í milliriðlum voru þau í essinu sínu og kom mörgum á óvart þegar þau skutust upp í 7. sæti og tryggðu sér öruggt sæti í A-úrslitum flokksins.

Þar sýndi Sina mikla færni Nóa þegar þau tóku af stað á stökki frá kyrrstöðu. „Mér finnst mikilvægt að hafa hestana alltaf alveg undir stjórn og ég þjálfa Nóa t.d. rosalega mikið í gegnum fimiæfingar. Þessi skipting, frá feti upp í stökk, hjálpar honum mikið, því þá get ég safnað honum og stökkið verður þá mikið betra. Það er líka bara gaman að geta sýnt hvað hann er þjáll, vel þjálfaður og sterkur hestur. Það geta nefnilega ekki allir hestar farið í svona miklum burði upp á stökkið, sérstaklega verandi alhliðahestur.“

Sina er að vonum í skýjunum með árangurinn á Landsmóti, hún hafi komið henni sjálfri skemmtilega á óvart. Þau Nói stefna þó ótrauð áfram enda keppnisferillinn bara rétt að hefjast. 

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...