Stórátak í riðuarfgerðagreiningum
Mikil gerjun hefur átt sér stað á síðustu misserum í málum tengdum rannsóknum á riðuveiki. RML, Keldur, Karólína í Hvammshlíð og hópur ótrúlega áhugasamra erlendra vísindamanna hafa komið að verkefnum sem m.a. miða að því að leita í stofninum að verndandi arfgerðum. Öll þessi vinna miðar að því að hafa fleiri verkfæri í baráttunni við riðuveiki með það að markmiði að útrýma henni.
Nýverið hlaut RML styrk úr Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar til þess að standa fyrir stórátaki í arfgerðagreiningum. Um er að ræða svo kallaðar riðuarfgerðargreiningar þar sem arfgerð príonpróteinsins er skoðuð í kindum. Fagráð í sauðfjárrækt hvetur mjög til þess að rannsóknir tengdar riðuveiki séu efldar og hvernig rækta megi stofna/hjarðir með þolnari arfgerð gagnvart henni. Styrkurinn mun að stærstum hluta nýtast til niðurgreiðslu á kostnaði við greiningu á sýnum, þannig að greina megi sem flesta gripi.
Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að hvetja bændur í gang af enn meira afli en áður, í að rækta skipulega upp stofna/hjarðir með þolnari arfgerðir gegn riðuveiki. Hins vegar er verið að setja aukinn kraft í að leita að verndandi arfgerðum og í raun öllum arfgerðum príonpróteinsins sem geta haft áhrif á næmi kinda gegn riðuveiki. Verkefnið er skipulagt í samstarfi við þá aðila sem koma að tengdum rannsóknarverkefnum sem eru þegar í gangi.
Hvaða sæti á að skoða?
Í hefðbundinni arfgerðagreiningu, t.d. þjónustugreiningum Matís eins og þær hafa verið framkvæmdar, þá er leitað í tveim sætum á príongeninu. Það eru sæti 136 og 154. Stökkbreytingar sem geta fundist í þessum sætum gefa til kynna hvort við teljum gripinn vera með hlutlausa/miðlungsnæma arfgerð, áhættu arfgerð eða lítið næma arfgerð (áður kölluð verndandi hér á landi). Í þessu verkefni verður hins vegar leitað í 6 sætum á geninu. Það eru sæti 136, 137, 138, 151, 154 og 171.
Í öllum þessum sætum nema einu hefur fundist breytileiki sem virðist hafa áhrif á mótstöðu gegn riðuveiki. Í sæti 171 hefur því miður ekkert fundist nema Q hér á landi, en í erlendum kynjum hefur þetta sæti að geyma þann verndandi breytileika (R) sem alþjóðlega er grunnur að útrýmingu riðu með mjög góðum árangri (-> arfgerðin ARR). Í sæti 137 er ljóst að breytileiki finnst en er mjög sjaldgæfur; til þessa hafa fundist þrjár ær á Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu og ein ær á Straumi í Hróarstungu sem er ferhyrnd og óskyld hinum. Miklar vonir eru bundnar við að sá breytileiki (T í 137) virki verndandi en rannsóknir á Ítalíu hafa gefið það til kynna.
Nánar má lesa um mismunandi arfgerðir og hvaða breytileiki hefur fundist í hinum mismunandi sætum í Hrútaskránni 2020–2021 og greinum Karólínu sem birtar hafa verið hér í Bændablaðinu.
Um útfærslu verkefnisins – „Átaksverkefni – riðuarfgerðagreiningar 2022“
- Það munu allir sauðfjárbændur geta sótt um þátttöku.
- Bændur munu greiða hluta kostnaðar við hverja greiningu. Einingaverð liggur ekki fyrir á þessari stundu en markmið að það verði innan við 1.000 kr/án VSK á hvert sýni.
Fjöldi greininga á niðursettu verði gætu orðið í kringum 15.000. - Ef eftirspurn verður umfram þann fjölda sýna sem hægt er að styrkja, verður væntanlega hægt að bjóða mönnum að nýta afsláttarkjörin sem fást í gegnum átakið.
- Bændur munu sjálfir geta annast sýnatöku en RML mun einnig bjóða upp á þjónustu við sýnatöku samkvæmt tímagjaldi.
- RML mun sjá um alla umsýslu á sýnum, bændum að kostnaðarlausu.
- Bændur munu geta sótt um þátttöku inn á heimasíðu RML. Stefnt er að því að opna fyrir pantanir eigi síðar en 20. janúar.
Sækja þarf um í síðasta lagi 1. febrúar. - Í kjölfarið tekur við afgreiðsla umsókna. Það ræðst síðan af þátttöku hvað verður hægt að úthluta hverjum og einum margar greiningar á niðursettu verði. Gæti það hlutfall orðið eitthvað misjafnt milli búa en tekið verður þá tillit til hagsmuna rannsóknarinnar og ræktunarstarfsins ef nauðsyn krefur að forgangsraða. Bændur geta að sjálfsögðu sent fleiri sýni ef þeir óska eftir og greiða þá fullt verð fyrir þau sýni.
- Reiknað er með að búið sé að taka öll sýni vegna verkefnisins 1. maí 2022; sýnatakan byrjar sem fyrst eftir afgreiðslu umsókna líkur og getur hún farið fram í tveimur áföngum þannig að í seinni áfanga byggi val gripa á niðurstöðum úr fyrri áfanga.
- Upplýsingar um nánari útfærslu á verkefninu verður að finna á heimasíðu RML þegar líður að því að hægt verði að opna fyrir umsóknir, þar verða settar fram upplýsingar varðandi kostnað, skilyrði varðandi þátttöku, um framkvæmd sýnatökunnar, val á gripum o.fl.
Spennandi upplýsingar sem nýtast fyrir ræktunarstarfið
Hér er um að ræða gríðarlega gott tækifæri til að fá yfirgripsmiklar upplýsingar um tíðni mismunandi arfgerða príonpróteinsins í stofninum. Þetta er jafnframt geysilega gott tækifæri fyrir þá sem hafa hug á að rækta upp þolnari fjárstofn að hafa hér hugsanlega möguleika til að láta skoða stóran hluta af hjörð sinni á hagkvæman hátt. Eftirspurn eftir gripum með lítið næma eða verndandi arfgerðir mun að öllum líkindum færast mjög í aukana á næstu árum og því mikilvægt að allir leggi hönd á plóg að framleiða slíka gripi.
Vissulega höfum við enn ekki í höndunum viðurkennda verndandi arfgerð, en það eru sterkar líkur á að „ítalska útgáfan“ (T137) virki sem slík. Síðan er það ekki útilokað að hin klassíska verndandi arfgerð finnist hér (R171 eða ARR). En meðan málin skýrast með hinar verndandi arfgerðir og hversu mikilvægir breytileikar í öðrum sætum eru, er brýnt að tapa ekki úr stofninum fágætum arfgerðum. Þá er alltaf til mikils unnið að auka tíðni lítið næmu arfgerðarinnar (H í sæti 154) og útrýma áhættuarfgerðinni (V í sæti 136) í hjörðum þar sem riða getur hugsanlega skotið upp kollinum.
Nánar verður fjallað um þetta í næsta Bændablaði og á vef RML.