Stóraukin eldpiparræktun
Eldpiparræktunin í Heiðmörk í Laugarási hefur verið stóraukin í sumar.
Eldpiparaldin, sem er í mismunandi styrkleikum, stærð, lögun og litbrigðum, hefur fallið vel í kramið hjá Íslendingum, frá því að Óli Finnsson og Inga Sigríður Snorradóttir keyptu garðyrkjustöðina árið 2021 og hófu þessa ræktun.
Nú í sumar hefur framleiðslan verið tvöfölduð, frá því að framleiða um 100 kíló á mánuði yfir í að nálgast 200, og segir Óli að þau selji jöfnum höndum til almennings og til veitingafólks. Að á Íslandi hafi myndast harður kjarni ástríðufólks sem brenni fyrir áti á eldpipar.
Fært sig líka yfir á heildsölumarkaðinn
Áður en Óli og Inga tóku við stöðinni var hún meðal annars kunn af Heiðmerkursalatinu og -steinseljunni. „Við fórum strax að huga að breytingum í rekstrinum og fórum fyrst yfir í ýmsar paprikutegundir; eins og snakkpapriku, sætpapriku og svo eldpiparinn.
Til að byrja með seldum við bara inn á smásölumarkaðinn en smám saman höfum við verið að færa okkur líka inn á heildsölumarkaðinn með eldpipar,“ segir hann en þau hafa undanfarin tvö ár verið í heilsársframleiðslu á eldpiparnum.
Allur skalinn af styrkleika
„Við erum eiginlega með allan skalann af styrkleika á eldpipar; frá Carolina Reaper, sem er talinn vera sá næststerkasti sem ræktaður er í heiminum, og alveg niður í mjög mildar tegundir – sem eru aðeins sterkari en paprika.
Það er svo sem ekkert mjög mikil sala í þessum allra sterkustu en þó eru ákveðnir tryggir viðskiptavinir sem sækja í þetta.
Hann segir að það hafi verið dálítið sérkennilegt í byrjun að þau hafi selt í raun jafnmikið af þessum sterkasta og svo salapeño, sem var þá mildastur. Tegundirnar sem voru í millistyrkleika hafi farið hægar af stað, eins og cayenne sem til er í nokkrum litbrigðum, en eru núna eiginlega að ná mestum vinsældum. Enda er cayenne tegund sem flestir þekkja sem klassískan eldpipar.
Beint frá býli
Þau Óli og Inga eru með litla sjálfsafgreiðsluverslun við stöðina sína þar sem viðskiptavinir geta alltaf gengið að ferskasta grænmetinu og kryddinu hverju sinni.
Óli segir að margir fastakúnnar venji reglulega komur sínar í verslunina. Auk eldpipars eru þau meðal annars með sætpaprikur, snakkpaprikur, salat, tómata og kryddtegundir.