Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Þarna glyttir í Hrafnagilsskóla Eyjafjarðarsveitar.
Þarna glyttir í Hrafnagilsskóla Eyjafjarðarsveitar.
Mynd / HKr
Fréttir 18. febrúar 2022

Stórframkvæmd við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Umfangsmiklar byggingaframkvæmdir standa yfir við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit þar sem verið er að reisa um 2000 fermetra viðbyggingu við skólann.

Til að fjármagna svo umfangsmikið verkefnið ætlar sveitarfélagið að selja þrjár fasteignir, gömul samkomuhús sem voru í gömlu hreppunum þremur sem eitt sinn voru til, Laugaland, Sólgarð og Freyvang.

Sölu á síðastnefnda húsinu hefur þó verið slegið á frest næstu tvö ár en Freyvangsleikhúsið sem þar starfar hefur hug á að leiga húsið á því tímabili. Sveitarstjóra hefur verið falið að hefja undirbúning sölu annarra húsa.

Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit segir auk þess sem sveitarfélagið nýti það fé sem fæst með sölu fasteignanna sé sala eignanna einnig liður í að einfalda reksturinn nú þegar stórt og veglegt nýtt húsnæði rís fyrir kjarnastarfsemi sveitarfélagsins.

Finnur segir að Freyvangur verði ekki seldur næstu tvö ár, en þess freistað að ganga til samninga við Freyvangsleikhúsið um leigu og rekstur þess á húsinu á þeim tíma. Það hafði ekki tök á að kaupa húsið en hefur áhuga fyrir að taka við rekstri þess. Forsvarsmönnum leikhússins leist ekki á að flytja starfsemina yfir í Laugaborg en sá möguleiki var til skoðunar um tíma. Þar skipti umfang starfsemi Freyvangsleikhússins mestu og tölu aðstandendur þess að starfsemi félagins yrði sjálfhætt ef það missti aðstöðu sína í Freyvangi.

Viðræður í gangi um Sólgarð

Smámunasafn Sverris Hermanns- sonar hefur verið til húsa í Sólgarði undanfarin ár og þar er einnig íbúð sem sveitarfélagið hefur haft til útleigu. Sólgarður var byggður í áföngum á árunum 1935 til 1979 og er um 740 fermetrar að stærð en við það stendur einnig ríflega 50 fermetra stór bílskúr.

Húsið var endurbætt árið 1996. Finnur segir húsnæðið bjóða upp á marga spennandi möguleika, en það er staðsett við Saurbæjarkirkju og stendur við Eyjafjarðarbraut vestri. „Við eigum í viðræðum við aðila sem hafa áhuga fyrir húsinu,“ segir Finnur og bætir við að mikilvægt sé við undirbúning að sölu Sólgarðs að skoða hver framtíð Smámunasafnsins verði.

Stefna á að selja Laugalandsskóla í nánustu framtíð

Guðjón Samúelsson teiknaði Laugalandsskóla en húsið var byggt í áföngunum til ársins 1948. Það er 960 fermetrar að stærð og hýsti húsmæðraskóla til ársins 1975 og síðar grunnskóla til ársins 1992. Þar er nú starfrækt áfangaheimili fyrir stúlkur á vegum Barnaverndarstofu.

Laugaland er á þremur hæðum, stendur á eins hektara fallegri jörð á móts við Hrafnagilshverfið. Við skólann er sundlaug sem ekki hefur verið nýtt í langan tíma. Finnur segir húsið ekki síður en Sólgarð bjóða upp á marga möguleika en á efstu hæð þess er salur með útsýni yfir Eyjafjarðará og tignarlegan fjallahring.

„Það er stefnan að selja þetta hús í nánustu framtíð, en ekki tímabært alveg núna að taka endanlega ákvörðun um það en í húsinu fer fram metnaðarfull starfsemi á vegum Barnaverndarstofu sem ekki liggur fyrir hvort verði áfram til staðar,“ segir Finnur.

Skylt efni: Hrafnagilsskóli

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...